Fara í efni
Fréttir

Narfi í Hrísey í hóp fyrirmyndarfélaga ÍSÍ

Ungmennafélagið Narfi í Hrísey fékk viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ í gær, 1. mars. Það var Hrund Teitsdóttir formaður félagsins sem tók við viðurkenningunni úr hendi Viðars Sigurjónssonar sérfræðings á Stjórnsýslusviði ÍSÍ. Fleiri Fyrirmyndarfélög eru innan Íþróttabandalags Akureyrar en í nokkru öðru íþróttahéraði og mun þeim fjölga enn frekar á næstunni.

Á myndinni eru frá vinstri; Ellert Örn Erlingsson fostöðumaður íþróttamála hjá Akureyrarbæ, Birna Baldursdóttir starfandi formaður ÍBA, Ingólfur Sigfússon gjaldkeri Narfa, Hrund Teitsdóttir, Viðar Sigurjónsson og Helga Björg Ingvadóttir framkvæmdastjóri ÍBA.

„Við í Ungmennafélaginu Narfa í Hrísey erum bæði þakklát og stolt að hljóta viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Það er markmið okkar að standa fyrir öflugu starfi og að vera til fyrirmyndar á öllum sviðum og því frábært að fá þessa viðurkenningu“ sagði Hrund Teitsdóttir formaður félagsins við þetta tilefni.

  • Til að verða fyrirmyndarfélag þarf að uppfylla ýmiskonar skilyrði sem lúta að starfsemi félags og stefnu í nokkrum málaflokkum, svo sem fræðslu- og forvarnarmálum, jafnréttismálum, umhverfismálum, persónuverndarmálum, menntun þjálfara og siðareglum.