Nágrannaslagur, Vetrar-Líf og fleira
Það verður fremur rólegt fram eftir vikunni þegar horft er til kappleikja hjá Akureyrarliðunum, ef til vill bara lognið á undan storminum því á fimmtudag mætast karlaliðin í handboltanum, KA og Þór, í Olísdeildinni. Næstu dagar síðan nokkuð hefðbundnir, körfubolti hjá báðum Þórsliðunum, blak hjá báðum KA-liðunum og hokkíleikur hjá konunum í SA.
FIMMTUDAGUR 20. NÓVEMBER - handbolti
Eflaust hefur handboltaáhugafólk beðið nokkuð eftir leiknum sem er á dagskrá í KA-heimilinu á fimmtudag. Eftir að hafa dvalið í næstefstu deild um tíma eru Þórsarar nú aftur í efstu deildinni og Akureyringar fá því tvo alvöru nágrannaleiki í vetur. Sá fyrri er á dagskránni á fimmtudag. Félögin hafa selt sínu stuðningsfólki miða hvort í sínu lagi og munu miðarnir sem Þór fékk úthlutaða hafa selst upp á síðasta heimaleik liðsins, en síðustu miðar KA verða til sölu í félagsheimilinu síðdegis í dag, þriðjudag. Það þýðir líklega ekkert að ranka við sér á fimmtudaginn og ætla að kaupa miða, þeir verða að líkindum allir farnir þá.
- Olísdeild karla í handknattleik
KA-heimilið kl. 19:30
KA - Þór
KA hefur gengið mun betur það sem af er móti en Þór. KA er í 4. sæti deildarinnar með 12 stig, en Þór í 10. sætinu með sjö stig. Gengi liðanna var þó ólíkt í 10. umferðinni þar sem Þórsarar gerðu jafntefli við topplið Aftureldingar á heimavelli, en áður hafði lið KA verið kjöldregið af FH í Kaplakrika. Þess má geta að KA og Þór mættust í æfingamóti fyrir tímabilið, KG sendibílamótinu, og hafði KA betur, 29-23.
FÖSTUDAGUR 21. NÓVEMBER - körfubolti
Karlalið Þórs í körfuknattleik hefur ekki átt góðu gengi að fagna það sem af er vetri, aðeins unnið einn leik af fyrstu sex og er í næstneðsta sæti deildarinnar. Skallagrímur hefur unnið þrjá leiki af fyrstu sjö.
- 1. deild karla í körfuknattleik
Íþróttahúsið í Borgarnesi kl. 19:15
Skallagrímur - Þór
LAUGARDAGUR 22. NÓVEMBER - blak, íshokkí, körfubolti, vetrarlíf
Laugardagurinn er ekki þétt setinn af heimaleikjum í boltaíþróttunum um komandi helgi, en það verður þó nóg af spennandi viðburðum því kl. 11-17 er á dagskrá sýning vélsleðamanna í Reiðhöllinni. Sýning sem þú vilt ekki láta framhjá þér fara, eins og sýningarhaldarar orða það.
Landssamband íslenskra vélsleðamanna stendur fyrir sýningunni Vetrar-Líf þar sem til sýnis verður allt það helsta sem viðkemur vetrarsportum á farartækjum (án bolta). Þar verða vélsleðar, bílar, reiðhjól, fjórhjól, mótorhjól, fatnaður, skíðabúnaður, ljós og margt fleira.
- Reiðhöllin, Safírstræti 2, Akureyri
Vetrar-Líf kl. 11-17
- - -
Blaklið KA halda austur á Neskaupstað um helgina þar sem karlaliðið spilar tvo leiki, þann fyrri á laugardag. KA er í 2. sæti deildarinnar með 20 stig úr níu leikjum, en Hamar er á toppnum með 26 stig úr tíu leikjum. Austfirðingum hefur ekki gengið sérlega vel það sem af er, en Þróttur Fjarðabyggð er í næstneðsta sæti deildarinnar með fjögur stig úr átta leikjum.
- Unbroken-deild karla í blaki
Íþróttahúsið í Neskaupstað kl. 14
Þróttur Fjarðabyggð - KA
- - -
Kvennalið KA heldur einnig austur á laugardag og mætir Þrótti Fjarðabyggð, en spilar þó aðeins einn leik. Liðin mætast í Neskaupstað á laugardag. KA er á toppi deildarinnar með 23 stig úr átta leikjum, en Þróttur Fjarðabyggð er án stiga á botni deildarinnar eftir níu leiki.
- Unbroken-deild kvenna í blaki
Íþróttahúsið í Neskaupstað kl. 16:15
Þróttur Fjarðabyggð - KA
- - -
Kvennalið SA í íshokkí er á toppi Toppdeildarinnar eftir sex umferðir með 17 stig. Liðið hefur unnið alla leikina til þessa, en þó þurfti framlengingu til í eitt skipti og það var einmitt á móti SR fyrr í haust. SA sækir SR heim í Laugardalinn á laugardag, aftur og nýbúnar því þessi lið mættust á Akureyri á sunnudag þar sem SA vann 5-0.
- Toppdeild kvenna í íshokkí
Skautahöllin í Laugardal kl. 17:45
SR - SA
- - -
Kvennalið Þórs í körfunni hefur verið óstöðvandi það sem af er leiktíðinni, hefur unnið alla fimm leiki sína til þessa. Þórsliðið er á toppnum ásamt Aþenu, sem einnig hefur unnið fimm leiki, en tapað einum. KV mætir í Íþróttahöllina á Akureyri á laugardag, en Vesturbæingar eru eitt tveggja liða sem ekki hafa enn náð að vinna leik. KV er í 9. sætinu, hefur tapað sex fyrstu leikjum sínum, en Vestri er þar fyrir neðan með fimm töp.
- 1. deild kvenna í körfuknattleik
Íþróttahöllin á Akureyri kl. 18
Þór - KV
SUNNUDAGUR 23. NÓVEMBER - blak
Seinni leikur karlaliða KA og Þróttar Fjarðabyggð fer fram í Neskaupstað á sunnudag.
- Unbroken-deild karla í blaki
Íþróttahúsið í Neskaupstað kl. 14
Þróttur Fjarðabyggð - KA