Fara í efni
Fréttir

Nær öll auglýst störf verða „án staðsetningar“

Nær öll auglýst störf verða „án staðsetningar“

Nær öll störf sem aug­lýst verða í nýju ráðuneyti Áslaug­ar Örnu Sig­ur­björns­dótt­ur, há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, munu bjóða upp á það sem jafnan er kallað störf án staðsetn­ing­ar. Ráðuneytið er fyrsta rík­is­stofn­un­in til að gefa skýrt út að nær öll störf verði án staðsetn­ing­ar.

Þetta kem­ur fram í grein Áslaug­ar Örnu sem birtist í Morg­un­blaðinu í gær.

„Við upp­bygg­ingu nýs ráðuneyt­is er mik­il­vægt að hugsa hlut­ina upp á nýtt, horfa á mynd­ina með öðrum aug­um en áður, huga að ný­sköp­un í stjórn­sýslu, vera fram­sæk­in og bjóða upp á sveigj­an­leika sem nýt­ist bæði starfs­mönn­um ráðuneyt­is­ins og þeim aðilum sem ráðuneytið þjón­ar.

Nýtt ráðuneyti þarf líka að taka mið af nýj­ustu tækni og þeim mögu­leik­um sem í boði eru. Þess vegna munu nær öll störf sem aug­lýst verða í ráðuneyt­inu bjóða upp á það sem við þekkj­um í dag­legu tali sem störf án staðsetn­ing­ar. Framtíðar­starfs­menn ráðuneyt­is­ins geta þannig búið á höfuðborg­ar­svæðinu eða á lands­byggðinni. Það er mik­ill feng­ur í því að geta starfað fyr­ir ráðuneyti en hafa fjöl­breytt val um bú­setu,“ seg­ir í grein Áslaug­ar Örnu.

Gæði ráðuneyta ekki talið í fer­metr­um

Áslaug bendir á að með því að veita fólki þann mögu­leika að starfa án staðsetn­ing­ar sé hægt að efla lands­byggðina og gera at­vinnu­lífið fjöl­breytt­ara.

„Ef það er eitt­hvað sem við get­um lært af far­aldr­in­um sem við höf­um átt við sl. tvö ár þá eru það tæki­fær­in sem við sjá­um til að starfa á ólík­um starfs­stöðvum. Gæði ráðuneyta eru ekki tal­in í þeim fer­metr­um sem þau taka í skrif­stofu­hús­næði í miðbæ Reykja­vík­ur, held­ur í af­köst­um og þeim áhrif­um sem þau hafa á dag­legt líf okk­ar, í þessu til­viki á mennta­kerfið, at­vinnu­lífið, fjár­fest­ing­ar og þróun í ný­sköp­un, lausn­ir í iðnaði og þannig mætti áfram telja. Skýr­ar leik­regl­ur og skil­virk þjón­usta er það sem skipt­ir máli,“ seg­ir einnig í grein­inni.