Fara í efni
Fréttir

Ná fólki úr Fjarkanum eftir að hann stöðvaðist

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Skíðalyftan Fjarkinn í Hlíðarfjalli stöðvaðist eftir hádegi í dag þegar vír losnaði af sporinu. Um 20 manns voru í lyftunni. Björgunarsveitarmenn voru kallaðir á staðinn og búið er að ná nokkrum niður úr lyftunni. Skv. upplýsingum frá lögreglunni er ekki vitað að neinn hafi slasast og ekki talin hætta á að það gerist.

Tilkynning á Facebook síðu lögreglunnar fyrir nokkrum mínútum er svohljóðandi:

Kl. 13:38 barst tilkynning um að skíðalyfta í Hlíðarfjalli, Fjarkinn, hafi stöðvast og að um 20 manns væri í lyftunni. Óskað var eftir aðstoð björgunarsveitarinnar Súlur við að koma fólkinu úr lyftunni.

Aðgerðarstjórn var virkjuð. Lögregla, sjúkralið og björgunarsveit var boðuð á vettvang og strax hafist handa við að koma fólkinu úr lyftunni. Fljótlega kom í ljós að bilunin í lyftunni stafaði af því að vír hafði losnað úr spori sínu og lyftan stöðvast við það. Ekki er vitað til þess að neinn hafi slasast og ekki talin hætta á að það muni gerast. Þegar þetta er skráð er búið að ná nokkrum niður úr lyftunni og vinna í gangi við að ná þeim sem eftir eru. Þeir fá svo skoðun hjá heilbrigðisstarfsfólki.

Uppfært 15:15 „Búið er að bjarga öllum úr lyftunni og allir óslasaðir en sumir nokkuð kaldir. Björgunarstarf gekk mjög vel og þakkar lögregla öllum sem komu að aðgerðinni,“ segir á Facebook síðu lögreglunnar.