Fara í efni
Fréttir

Munu hamla umferð um Krossanesbrautina

Þrengingar í götunni - en þó ekki, því þar til gerðar merkingar hafa verið færðar af akbrautinni. Ljósmyndir: Haraldur Ingólfsson.

Undanfarna mánuði hefur verið mikill atgangur í hinu nýja Holtahverfi norður eins og það er kallað, íbúðasvæði í byggingu norðaustan Krossanesbrautar. Þrengingum var komið fyrir á nokkrum stöðum á Krossanesbrautinni á kaflanum á milli Hlíðarbrautar og Undirhlíðar þegar framkvæmdir hófust við hið nýja hverfi, en þær hafa nú verið fjarlægðar af götunni. Umferðin um Krossanesbrautina er óheft sem stendur og án hraðahindrana þrátt fyrir að enn séu mikil umsvif og vinna á byggingarsvæðinu og þá miklu umferð, meðal annars þungaflutninga, sem fer um þessa götu.

Holtahverfi norður í hnotskurn

  • Um 280 íbúðir verða í Holtahverfi norðaustan Krossanesbrautar þegar það verður fullbyggt
  • Umferðarskipulag verður bætt með áherslu á gönguleiðir í skóla- og íþróttastarf, útivistarsvæði og nýir stígar gerðir um hverfið

Þrengingarnar standa við hlið götunnar

Inga Dagný Eydal, íbúi við Einholt, vakti máls á umferðaröryggi á svæðinu í pistli á Facebook-síðu sinni nýlega. Þar kveðst hún flesta morgna horfa á börnin í hverfinu – og á þá við núverandi Holtahverfi – ganga upp Einholtið á leið í skóla. Leiðin sé löng úr Holtahverfi í Glerárskóla, en góðir göngustígar og hámarkshraði upp á 30 km/klst. hjálpi til. „Ég á hins vegar erfitt með tilhugsunina um börnin og aðra sem munu þurfa að fara yfir Krossanesbraut og nú styttist óðfluga í að fyrstu húsin verði fullkláruð austan brautar. Engar merkingar um hámarkshraða eru sjáanlegar og stórir flutningabílar sjá fyrir þungri umferð alla daga,“ ritar Inga Dagný.

Hún vekur athygli á þar sem þrengingarnar sem settar voru upp séu ekki lengur til staðar hafi hún í þrígang, fyrst 27. janúar, sent fyrirspurn til bæjarins og spurt hver sé leyfilegur hámarkshraði á þessari götu og hver sé fyrirhugaður hámarkshraði í framtíðinni. „Ljóst er að framkvæmdir verða næstu árin við götuna með jarðraski og ryki sem reyndar dró töluvert úr eftir að þrengingar voru settar á götuna,“ ritar Inga Dagný og endar á því að minna á að samkvæmt skipulagi eigi að draga úr umferðarhraða og hávaða við Krossanesbraut, að minnsta kosti eftir að flutt verður í húsin austan götunnar. „Er ljóst hvenær framkvæmdir við þær breytingar hefjast?“ spyr Inga Dagný Eydal að lokum í pistlinum.

Ekki virðist alveg á hreinu af hverju þrengingarnar hafa verið fjarlægðar, en Pétur Ingi Haraldsson, skipulagsfulltrúi á þjónustu- og skipulagssviði Akureyrarbæjar, segir ábendinguna frá Ingu góða og að málið verði tekið til nánari skoðunar.

Hámarkshraði lækkaður

Spurningum Ingu Dagnýjar um aðgerðir á Krossanesbrautinni hefur þó líklega að einhverju leyti verið svarað nú þegar í aðdraganda að uppbyggingu hverfisins og í deiliskipulagi fyrir það, að minnsta kosti ef litið er til framtíðar þó staðan á Krossanesbrautinni í dag sé óljós.

Pétur Ingi bendir á deiliskipulag Holtahverfis og segir að á því megi sjá að gert sé ráð fyrir að Krossanesbrautin á þessu svæði muni breytast töluvert, meðal annars við gatnamót við Hlíðarbraut og Undirhlíð. Hann segir að forsendurnar séu að beina eigi umferðinni frá þessum hluta götunnar og að hönnun götunnar miði einnig við að hægja á umferðinni, þar verði hámarkshraði 30 km/klst.

Á meðfylgjandi mynd úr deiliskipulaginu má sjá þær breytingar sem gert er ráð fyrir að verði á Krossanesbrautinni við áðurnefnd gatnamót, en umrætt hverfi liggur þar á milli. Reiknað er með að þrengja aðkomu inn í þann hluta Krossanesbrautarinnar sem liggur meðfram nýja hverfinu og gera þungaumferð erfiðara fyrir að fara þar um, auk þess sem hámarkshraði þar verður lækkaður.

Á rafrænum kynningarfundi sem haldinn var 21. september 2020 og finna má á YouTube-rás Akureyrarbæjar fór Pétur Ingi meðal annars yfir umferðarmálin og fyrirhugaðar breytingar á Krossanesbrautinni. Þar kemur fram að á þeim tíma hafi áætluð umferð á dag verið 3.800 bílar og stór hluti af þeirri umferð sé þungaumferð. Íbúar á þessum slóðum hafi óskað eftir að farið verði í aðgerðir til að hægja á umferðinni. Hún sé ekki aðeins hættuleg gangandi vegfarendum heldur skapi hún einnig hávaða.

Takmörkun hraða mikilvæg forsenda uppbyggingar

„Í gildandi aðalskipulagi kemur fram að stefnt sé að því að beina þessari umferð af Krossanesbraut yfir á Hörgárbraut, frekar en að hún haldi áfram að fara yfir þetta svæði,“ sagði Pétur Ingi á áðurnefndum fundi. „Í raun lítum við á þetta sem mikilvæga forsendu fyrir því að skynsamlegt verði að byggja á þessu svæði. Hörgárbrautin, þjóðvegur 1, er í dag nægur farartálmi fyrir börn á leið í skóla og íþróttir og ekki æskilegt að gera ráð fyrir að þau fari yfir tvær stórar og hættulegar umferðargötur. Vegna þessa hefur frá upphafi verið hugað að því hvaða ráðstafanir þurfi til að beina umferðinni frá þessari götu.“

Lausnin samkvæmt því sem Pétur Ingi fór yfir á áðurnefndum kynningarfundi og sjá má á myndinni úr deiliskipulagi hverfisins er að þrengja og breyta innkomu í þann hluta Krossanesbrautarinnar sem liggur samhliða Einholtinu, meðfram nýja hverfinu frá gatnamótum við Hlíðarbraut að gatnamótum við Undirhlíð, þrengja þar að og gera þungaumferð erfiðara fyrir að komast þar um. Þannig verði slíkri umferð beint upp Hlíðarbrautina, niður Hörgárbraut og áfram, eða niður Undirhlíðina og þar aftur inn á Krossanesbrautina, eftir atvikum.