Fara í efni
Fréttir

Mun betur fór en á horfðist í flughálku

Flughált var í Lögmannshlíð í dag eins og sjá má. Til hægri sést í Lögmannshlíðarkirkju. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Betur fór en á horfðist í dag þegar lítill jeppi lenti hálf út af veginum í Lögmannshlíð, rétt ofan  innkeyrslunnar að kirkjunni og kirkjugarðinum. Tvennt var í bílnum og sakaði hvorugt.

Bíllinn er á nagladekkjum. Ökumaðurinn kom ofan frá og hugðist aka framhjá kirkjunni, hesthúsahverfinu þar neðan við og sem leið lá niður í bæ. Hann missti stjórn á ökutækinu í beygju rétt ofan við kirkjuna þar sem var flughált enda hafði vegurinn ekki verið sandaður. Bílstjórinn reyndi að beygja út í skafl hægra megin vegar en missti stjórnina og bíllinn rann hálfur út af hinum megin; staðnæmdist sem betur fer í litlum skafli í vegkantinum.

Ökumanni sem átti leið hjá tókst að hjálpa farþega út úr bifreiðinni en bílstjórinn beið undir stýri þar til aðstoð barst og bíll hans var dreginn upp á veginn.