Morgunroði og andi fortíðar í nýju verki
Nýtt vegglistaverk setur nú sterkan svip á Listagilið. Verkið, sem prýðir gaflinn á Kaupvangsstræti 19 og blasir við öllum þeim sem leið eiga upp Gilið, sýnir mannlíf, bíla og morgunsól í kringum 1970.
Það var Katla Þorsteinsdóttir sem átti frumkvæðið að því að gafl hússins fengi andlitslyftingu en hún hefur verið að taka húsnæðið sem áður hýsti fornbókaverslunina Fróða í gegn. Hún og listamaðurinn Stefán Óli Baldursson „Mottan“ eru vinir og fékk hún hann norður til að myndskreyta austurgafl hússins, þar sem áður var stórt auglýsingaskilti fyrir fornbókaverslunina Fróða. Útkoman er svipsterkt verk sem vísar í bæjarlífið fyrir rúmum 50 árum. Verkið hefur ekkert formlegt nafn en Stefán Óli kallar það einfaldlega „Gilið.”

Svona leit austurgafl hússins út síðasta haust, en verk Stefáns Óla hefur sannarlega lífgað upp á húsið.
Verkið byggt á gömlum ljósmyndum
Stefán Óli hefur áður málað nokkur stór vegglistaverk víða um land, til dæmis á Reyðarfirði, í Reykjavík og á Djúpavogi. Hann segist hafa fengið nokkuð frjálsar hendur með viðfangsefnið en þegar hugmyndin var komin var haft samráð við íbúa hússins áður en hafist var handa. Mótífið segir hann að byggi á gamalli ljósmynd frá Akureyri sem hann fann í Ljósmyndasafni Reykjavíkur, líklega frá sjöunda áratug síðustu aldar en myndin er tekin frá höfninni og upp Gilið. Segir hann ljósmyndina vera klassíska götumynd sem honum hafi fundist skemmtileg.
„Enginn veit með vissu hvenær myndin var tekin en líklega á bilinu 1960-70. Ég fór ekki alveg nákvæmlega eftir henni en verkið er samt byggt á henni,“ segir Stefán og bætir við að hann hafi bætt ýmsum smáatriðum við sem honum hafi fundist passa inn. Til að mynda bætti hann við manneskjum út frá öðrum ljósmyndum frá svipuðum tíma. Ljósmyndirnar voru allar svarthvítar, þannig að Stefán þurfti að ákveða litina sjálfur. Útkoman er líflegt myndverk af vinnandi fólki, mannlífi, bílaumferð og byggingum, allt baðað í hlýjum morgunroða.

Veggverkið er byggt á gömlum ljósmyndum frá Akureyri og kannski kannast gamlir Akureyringar við einhverja svipi í því.
Þekkirðu einhvern á veggnum?
Aðspurður hvernig hafi gengið að vinna verkið segir Stefán Óli að það hafi gengið vel þrátt fyrir smávegis rigningu. Verkið er nokkuð umfangsmikið og þurfti hann að taka mið af byggingunni sjálfri og vinna í kringum glugga og svalir. „Ég ætlaði fyrst aðeins að mála hornið á húsinu en verkið varð aðeins stærra en upphaflega var áætlað. Þegar ég var kominn á staðinn þá sá ég að veggurinn bauð upp á meira pláss en ég hafði gert ráð fyrir,” segir Stefán sem var tvær vikur á Akureyri að vinna verkið.
Blaðamaður hefur heyrt að einhverjir bæjarbúar telji sig þekkja bíla á myndinni eða jafnvel einstaklinga. Stefán tekur því með brosi og útilokar ekki að það geti alveg verið rétt, enda verkið unnið út frá alvöru ljósmyndum. Segir hann að það sé hluti af skemmtilegum anda verksins að fólk sjái sjálft sig í sögunni. Þá nefnir Stefán að honum finnist bílarnir í verkinu sérlega viðeigandi í Gilinu en þeir gefi jafnframt ákveðna tengingu við Bíladaga.

Listaverk Stefáns Óla lífgar upp á ásýnd Gilsins en verkið blasir við öllum þeim sem leið eiga upp Listagilið. Næst á dagskrá hjá listamanninum er að mála veggverk í Mjódd í Reykjavík. Nánari upplýsingar um listamanninn má finna á heimasíðunni mottan.is
Listaverk sem lífga upp á umhverfið
Gaman er að geta þess að aðeins nokkra metra frá verki Stefáns Óla, nánar tiltekið í portinu hjá Rub23, er að finna verk eftir félaga hans, Margeir Dire heitinn, sem var endurgert árið 2021. Stefán segir að þeir Margeir hafi verið góðir vinir og og litið upp til hvors annars sem listamenn. Það sé því engin tilviljun að Stefán Óli valdi að hafa bílnúmer eins bílsins í nýja veggverkinu sínu Dire.
Þá segir Stefán Óli ánægjulegt að sjá hvað veggjalist er almennt í miklum uppgangi á Íslandi enda geti veggverk lífgað mikið upp á umhverfið. „Þetta gerir svo góða hluti, sérstaklega fyrir auða veggi sem líta kannski ekki út fyrir að bjóða upp á mikið, en um leið og það er komin skreyting á þá breytir það allri götunni,” segir Stefán Óli að lokum, sáttur við útkomuna í Gilinu.

Verk Margeirs Dire í portinu hjá Rub23 sýnir fíl keyra barnavagn.