Fara í efni
Fréttir

„Mörgum spurningum er enn ósvarað“

Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Akureyrar, kveðst undrandi á því að heilbrigðisráðherra hafi farið þá leið sem raun ber vitni varðandi Öldrunarheimili Akureyrar; að semja við einkafyrirtæki án þess að láta meira fé í reksturinn en áður, að því er virðist, því ljóst hafi verið að ekki yrði hægt að draga úr kostnaði nema með því að segja upp fólki, lækka laun eða hætta að uppfylla lögbundnar skyldur við aldraða. Hún segir ýmsum spurningum ósvarað.

Akureyri.net sendi oddvitum flokkanna í bæjarstjórn spurningar í kjölfar uppsagna á Öldrunarheimilunum fyrir helgi. Nokkur svör birtust í gær; hér eru svör Hildu Jönu.

Kemur það þér á óvart að fólki með langa starfsreynslu skuli sagt upp, væntanlega til þess að ráða starfsfólk á lægri launum?

„Það kemur mér ekki á óvart fyrst að ríkið hefur líklega ekki látið nýjan rekstraraðila fá meiri fjármuni en Akureyrarbæ til rekstursins. Það kom mér hins vegar verulega á óvart að heilbrigðisráðherra skyldi velja þessa leið. Akureyrarbær fór gaumgæfilega yfir rekstur Öldrunarheimila Akureyrar og það var alveg ljóst að ekki væri hægt að draga úr kostnaði við reksturinn nema með því að segja upp fólki, lækka laun þeirra eða uppfylla ekki lögbundnar skyldur við aldraða. Akureyrarbær var einfaldlega ekki reiðubúinn til þess og hefur þess vegna undanfarin tíu ár eða svo greitt um tvöþúsund milljónir króna inn í rekstur hjúkrunarheimilisins, verkefni sem ríkið ber ábyrgð á. Á sama tíma hefur stöðugt verið reynt að fá meira fjármagn til rekstursins frá ríkinu en án árangurs. Eftir öll þessi ár var það algjört örþrifaráð nokkurra sveitarfélaga þ.m.t. Akureyrarbæjar að segja upp samningum við ríkið, sem er virkilega sorgleg niðurstaða að mínu mati.“

Óttaðist þú ekki, eða grunaði, að þetta myndi gerast þegar samið var við einkafyrirtæki um rekstur heimilanna?

„Fyrst þegar ríkið tilkynnti að HSN myndi taka við rekstri ÖA, þá þótti mér það ásættanleg niðurstaða. Þegar ríkið ákvað hins vegar að taka algjöra U-beygju hér á Akureyri og semja við einkahlutafélag um reksturinn þá óttaðist ég mjög að þetta yrði raunin.“

Finnst þér það skipta máli hvort einkafyrirtæki, sveitarfélag eða ríkið sjái um rekstur öldrunarheimila? Telurðu að þjónustan sé sambærileg - jafn góð - hvort sem einkafyrirtæki, sveitarfélag eða ríkið reki öldrunarheimili?

„Í fyrsta lagi tel ég mikilvægt að muna að á Öldrunarheimilum Akureyrar hefur farið fram gott faglegt starf og nýsköpun sem vert er að hrósa. Það er mikil synd að ríkisvaldið sjái ekki hag í því að viðhalda slíku þegar vel er gert. Ég átti satt best að segja von á því að HSN myndi taka við rekstrinum hér líkt og raunin varð í Vestmannaeyjum og Fjarðarbyggð þar sem heilbrigðisstofnanirnar tóku við rekstri hjúkrunarheimila og þá leið hefði ég kosið. Það þarf að ræða sérstaklega þjónustu við eldra fólk, mismunandi leiðir og lausnir, aðalatriðið þarf að vera að allir aldraðir eigi rétt á mannúðlegri og góðri þjónustu við hæfi hvers og eins. Ég óttast mjög að einkafyrirtæki leggi ávallt megináherslu á fjárhagslegan gróða í þeim verkefnum sem þau taka að sér. Í tilfelli Öldrunarheimila Akureyrar eru t.a.m. húsnæðismálin enn óleyst og hefði ég talið eðlilegt að fyrsta verkefni ríkisins væri að ræða við Akureyrarbæ um húsnæðið, enda eiga sveitarfélagið og ríkið húsnæðið sameiginlega. Hins vegar samdi ríkið við nýjan rekstraraðila um að greiða ekki leigu af húsnæðinu án þess að semja um það við Akureyrarbæ, sem mér þykir vægast sagt óeðlilegt. Hver á í framhaldinu að eiga húsnæðið og sjá um viðhald á því? Heyrst hefur að fasteignafélag í eigu nýrra rekstraraðila hafi áhuga á því að kaupa húsnæðið, jafnvel þó svo búið sé að semja um að þeir þurfi ekki að greiða neina leigu. Ef svo fer hver verður samningsstaða ríkisins til framtíðar við rekstraraðilann? Hvernig ætla rekstraraðilarnir að nýta húsnæðið, að öllu leiti undir rekstur hjúkrunarheimilisins eða jafnvel undir aðra tengda starfsemi með það að markmiði að „hámarka arðsemi verkefnisins“? Húsnæðismálin er stór angi þessa máls, þar sem mörgum spurningum er enn ósvarað.“

Eftir á að hyggja, telur þú útilokað að SÍ og Akureyrarbær hefðu getað samið á viðunandi hátt fyrir báða aðila?

„Eftir um áratug af viðræðum, fundum, skýrslum og baráttu var alveg ljóst að ríkið ætlaði sér ekki að fjármagna reksturinn með eðlilegum hætti. Rekstur Akureyrarbæjar í heild sinni er mjög þungur og rekstrarniðurstaðan neikvæð ár eftir ár, við þær kringumstæður er óforsvaranlegt að sveitarfélagið greiði háar fjárhæðir með rekstri sem ríkinu ber að sinna lögum samkvæmt. Eina leiðin sem Akureyrarbær hefði haft til þess að halda áfram óbreyttri aðkomu sinni hefði verið að hætta eða draga verulega úr þjónustu í öðrum verkefnum sem sveitarfélagið sannarlega ber ábyrgð á og það er að sjálfsögðu ekki boðlegt.“