Fara í efni
Fréttir

Mogginn: KS kaupir KN á 2,5 milljarða

Höfuðstöðvar Kaupfélags Skagfirðinga á Sauðárkróki. Mynd af vef KS.

Morgunblaðið kveðst hafa heimildir fyrir því að Kaupfélag Skagfirðinga (KS) kaupi Kjarnafæði Norðlenska (KN) fyrir 2,5 milljarða króna. Þetta kemur fram í blaðinu í dag.

Blaðið segir að á undanförnum vikum hafi KN átt í viðræðum við fjárfesta um að auka hlutafé félagsins. „Rekstur félagsins gekk vel í fyrra, en fjármagnskostnaður þess var þungur sökum mikilla skulda. Viðræðurnar enduðu þó með því að Kaupfélag Skagfirðinga (KS) festi kaup á öllu hlutafé félagsins sl. föstudag.“

Komnir á aldur

Kaupin eru ekki háð samþykki Samkeppniseftirlitsins, eins og Akureyri.net hefur greint frá, vegna nýlegrar breytingar á búvörulögum; lögin veita nú afurðastöðvum undanþágu frá samkeppnislögum. Tekist var á um lagasetninguna í meðferð Alþingis í vetur og hagsmunasamtök í verslun og þjónustu gagnrýndu frumvarpið mjög.

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir, sem stofnuðu Kjarnafæði árið 1985 og eiga nú 28% hlut hvor í Kjarnafæði Norðlenska, ætla að selja KN sinn hlut eins og fram kom á sunnudagskvöldið. Eiður segir í Morgunblaðinu í dag að þeir bræður séu komnir á aldur. 

Aukin hagsæld bænda og neytenda

Sigurjón Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri KS, segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að viðskiptin feli í sér tækifæri til að gera betur  fyrir íslenska bændur og neytendur.

„Kaupin fela í sér tækifæri til að stækka einingar í landbúnaði, eins og löngu hefur gerst í nágrannalöndum okkar, auka hagsæld bænda og neytenda og hindra frekara undanhald byggða í landinu. Íslenskur landbúnaður á í samkeppni við innfluttar landbúnaðarafurðir sem eru bæði verulega niðurgreiddar og framleiddar hjá risafyrirtækjum þar sem framleiðslutækin eru nýtt allan sólarhringinn alla daga ársins,“ segir Sigurjón.

„Íslenskur kjötiðnaður er líklega í heild sinni um 5% af veltu Danish Crown, svo dæmi sé tekið, og einn aðili slátrar öllum svínum í Danmörku svo annað dæmi sé tekið. Nýting framleiðslutækja í landbúnaði á Íslandi er skelfileg.“