Fara í efni
Fréttir

„Mjög við hæfi og mikill heiður fyrir skólann“

Ólafur Ragnar Grímsson á málþinginu sem haldið var í gær í tilefni þess að Háskólinn á Akureyri veitti honum heiðursdoktorsnafnbót. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, hlaut í gær heiðursdoktorsnafnbót á sviði félagsvísinda við Háskólann á Akureyri eins og Akureyri.net greindi frá.

„Ólafur Ragnar Grímsson hefur markað djúp spor í Íslandssöguna á farsælum ferli sem fræðimaður, þjóðhöfðingi og alþjóðlegur stjórnmálamaður,“ segir í tilkynningu frá Háskólanum á Akureyri.

„Ólafur Ragnar var brautryðjandi á sviði félagsvísinda á Íslandi og varð lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands 1970 og síðan prófessor þremur árum seinna. Hann haslaði sér snemma alþjóðlegan völl sem nafn innan stjórnmálafræðinnar og eftir hann liggja margar fræðigreinar í íslenskum og erlendum tímaritum.

Ólafur hefur ekki aðeins rannsakað stjórnmálin því þátttaka hans í þeim hefur einnig verið veruleg, bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Á sínum pólitíska ferli var Ólafur ritstjóri, þingmaður og ráðherra og formaður Alþýðubandalagsins frá 1987 – 1995. Hann starfaði jafnframt á erlendum vettvangi og var meðal annars um árabil í forsvari fyrir alþjóðlegu þingmannasamtökin Parliamentarians for Global Action,“ segir á vef HA.

Albert Jónsson fyrrverandi sendiherra, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Ólafur Ragnar Grímsson.

Ólafur Þ. Harðarson prófessor emiritus, tvíburasysturnar Dalla og Tinna, dætur Ólafs Ragnars, og Karl Pétur Jónsson, eiginmaður Tinnu. 

Á vef Háskólans á Akureyri segir ennfremur: „Forsetatíð Ólafs Ragnars var um margt sérstök og markaði tímamót á ýmsum sviðum. Ekki einungis sat hann lengur en áður hafði þekkst heldur mörkuðu ýmsar ákvarðanir hans og túlkun á stjórnskipuninni tímamót. Má í því sambandi nefna túlkun hans á ákvæðum stjórnarskrár um heimild forseta til að synja lögum staðfestingar.

Málefni Norðurslóða hafa lengi verið Ólafi Ragnari hugleikin og á umliðnum árum hefur hann verið í lykilhlutverki við að setja þá umræðu á dagskrá alþjóðasamfélagsins. Þar ber líklega hæst að hann er stofnandi Arctic Circle, stærsta og mikilvægasta vettvangs alþjóðlegrar umræðu um samvinnu og framtíð norðurslóða og í raun jarðarinnar allrar.

Háskólinn á Akureyri naut velvildar og stuðnings Ólafs Ragnars Grímssonar þegar skólinn markaði sér bás með áherslu á norðurslóðir, bæði meðan Ólafur var forseti og æ síðan. Þá er fræðileg nálgun á stjórnskipun og stjórnmál í víðum skilningi meðal helstu viðfangsefna fræðafólks á Hug- og félagsvísindasviði Háskólans, en eins og að ofan greinir eru það svið þar sem Ólafur hefur látið ríkulega að sér kveða. Það er því mjög við hæfi og mikill heiður fyrir skólann að veita Ólafi Ragnari heiðursdoktorsnafnbót í félagsvísindum.“

Guðmundur Heiðar Frímannsson sem hélt ávarp á athöfninni í gær sem fulltrúi fræðasamfélagsins, Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, Ólafur Ragnar Grímsson heiðursdoktor og Birgir Guðmundsson, forseti Hug- og félagsvísindasviðs HA.

Í tilefni af veitingu heiðursdoktorsnafnbótarinnar var málþing undir yfirskriftinni Háskólar, lýðræði og Norðurslóðir – breytt heimsmynd, þar sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, flutti setningarávarp og fræðimenn fjölluðu um og áttu orðastað við Ólaf Ragnar um málaflokka þar sem hann hefur mikið látið að sér kveða, og sátu síðan í pallborði. Þar töluðu í fyrri hlutanum Ólafur Þ. Harðarson, prófessor emiritus við Háskóla Íslands, Ragnheiður E Þorsteinsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri og Guðrún Geirsdóttir, dósent við Háskóla Íslands og í þeim síðar Þorsteinn Gunnarsson fyrrverandi rektor Háskólans á Akureyri, Rachael Lorna Johnstone, prófessor við Háskólann á Akureyri og Háskólann í Nuuk, Grænlandi og Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra.

Eyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri og Ólafur Ragnar Grímsson á málþinginu í gær.