Fara í efni
Fréttir

Mjög slæmu veðri spáð í nótt

Skjáskot úr veðurfréttatíma RÚV í kvöld.
Skjáskot úr veðurfréttatíma RÚV í kvöld.

Óvissustigi var lýst yfir síðdegis vegna óveðurs á öllu landinu og á Norðausturlandi eru ýmist gular eða appelsínugular viðvaranir í gildi frá því klukkan 22.00 í kvöld þar til klukkan 15.00 á morgun, þriðjudag. Veðrið verður lang verst í nótt, þegar flestir verða væntanlega í fastasvefni eins og Hermann Karlsson, svæðisstjóri almannavarna á Akureyri, sagði í kvöld en fólki er ráðlagt að hafa allan varann á og fylgjast vel með upplýsingum.

Því er spáð að blása muni mjög hraustlega, fyrst úr suðaustri í nótt og síðan úr suðvestri á morgun. Veðurstofan segir að reikna megi með einhverri úrkomu samtímis. Því er spáð að vindur fari mest upp í 32 metra á sekúndu um hálf tvö leytið í nótt.

  • Fólki er ráðlagt að stefna ekki á ferðalög nema að hafa kynnt sér stöðuna sérstaklega vel á síðum Veðurstofunnar og Vegagerðarinnar.
  • Öxnadalsheiði var lokað í kvöld, reiknað er með að nýjar upplýsingar verði gefnar klukkan 8 í fyrramálið.
  • Fyrstu ferð Flugfélags Íslands á milli Reykjavíkur og Akureyrar í fyrramálið hefur verið aflýst. Gert er ráð fyrir að hægt verði að veita upplýsingar klukkan 10.30 um stöðu mála.