Fara í efni
Fréttir

Mjög slæmt veður og mun enn versna

Snjó blásið af göngustíg við Hlíðarbraut í morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Snjó blásið af göngustíg við Hlíðarbraut í morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Spáð er mjög slæmu veðri á norðanverðu landinu til hádegis á sunnudag, og hefur Veðurstofan gefið út gula viðvörun sem gildir þangað til. „Allhvöss eða hvöss norðanátt. Snjókoma eða él, skyggni mjög lítið á köflum og aksturrsskilyrði erfið, einkum á fjallvegum,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Leiðindaveður hefur verið á Akureyri síðustu daga með töluverðri snjókomu, en utar í firðinum hefur veðrið verið mjög slæmt; norðanátt og stórhríð.  Ólafsfjarðarvegi var lokið vegna snjóflóðs, flóð eyðilagði skála og búnað á skíðasvæði Siglfirðinga og rýma þurfti hús í bænum vegna snjóflóðahættu. Að auki hafa Siglfirðingar hvorki komist lönd né strönd vegna ástandsins.

Vegurinn um Ólafsfjarðarmúla er opinn eins og er, en áfram er óvissustig. Tekið er fram á vef Vegagerðarinnar að hann gæti lokast aftur með stuttum fyrirvara.

Þæfingsfærð er bæði á Grenivíkurvegi og milli Hjalteyrar og Dalvíkur, Siglufjarðarvegur er ófær fyrir utan Ketilás og óvissu stig í gildi vegna snjóflóðahættu. Óvissustig er einnig í gildi í Ljósavatnsskarði vegna snjóflóðahættu.