Fara í efni
Fréttir

Minntust Öbbu fallega á Akureyrarmótinu

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Aðalbjargar Hafsteinsdóttur, sem lést nýverið, var minnst með fallegum hætti á Akureyrarmótinu í frjálsíþróttum á Þórsvellinum á laugardaginn. Hún var í landsliði Íslands í frjálsíþróttum á árum áður og hefur verið varaformaður Frjálsíþróttasambands Íslands undanfarið.

Um hádegisbil tilkynnti vallarþulur að keppni yrði stöðvuð um stundarsakir, keppendur og starfsmenn stilltu sér upp á hlaupabrautinni framan við áhorfendastúkuna og síðan tók ræsir mótsins við stjórninni:

  • „Takið ykkur stöðu, setjið upp brosið,“ sagði ræsirinn – það væri í anda Öbbu að brosa. Síðan skaut hann af byssu sinni og hópurinn á vellinum og í stúkunni klappaði hressilega, Öbbu til heiðurs, í heila mínútu

Keppendur voru ríflega 110, flestir frá Ungmennafélagi Akureyrar (UFA) sem hélt mótið, en einnig frá Samherjum, Þingeyingum, Skagfirðingum og Húnvetningum auk annarra sem koma langt að. Um 30 sjálfboðaliðar störfuðu við mótið.

  • Smellið hér til að lesa frétt Akureyri.net um andlát Aðalbjargar. Abba og eiginmaður hennar, Ólafur Óskar Óskarsson, bjuggu lengi á Akureyri og ráku Bjarg - líkamsrækt. Aðalbjörg verður jarðsungin frá Grafarvogskirkju í dag kl. 15.00. 

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson