Fara í efni
Fréttir

Minnisvarði um vinina fjóra – MYNDIR

Minnisvarðinn afhjúpaður. Frá vinstri: Bragi Bergþór Viðar Vésteinsson, Ragnar Friðrik Ragnars, Jóhanna Gréta Möller, Lára Egilsdóttir og Geir Rafnsson. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Minnisvarði um fjóra unga menn sem fórust í flugslysi á Öxnadalsheiði fyrir 65 árum var afhjúpaður á heiðinni í dag að viðstöddum hópi fólks, einkum fjölskyldum þeirra og vinum.

Þeir sem létust voru Bragi Egilsson frá Hléskógum í Höfðahverfi, Geir Geirsson frá Djúpavogi, Reykvíkingurinn Jóhann G. Möller og Ragnar Friðrik Ragnars frá Siglufirði.

Þrír drengjanna voru tvítugir en sá fjórði árinu eldri. Allir höfðu þeir lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið áður, þrír voru nemendur í læknadeild Háskóla Íslands en Geir var að ljúka flugnámi.

Systur Ragnars Friðriks og Braga, Guðrún Ragnars og Laufey Egilsdóttir, hafa verið í forsvari fyrir verkefnið. Laufey bauð fólk velkomið í dag og síðan flutti ávarp Ingimundur Friðriksson, sem var í sveit ungur drengur í Hléskógum hjá foreldrum Braga, Laufeyjar og þeirra systkina.

Þau sem afhjúpuðu minnisvarðann í dag voru Jóhanna Gréta Möller, dóttir Jóhanns, Lára Egilsdóttir, systir Braga, Ragnar Friðrik Ragnars, bróðursonur Ragnars Friðriks, Geir Rafnsson, bróðursonur Geirs og Bragi Bergþór Viðar Vésteinsson, afastrákur Valgarðs heitins Egilssonar, bróður Braga.

Það var síðla dags 29. mars 1958 sem lagt var upp frá Reykjavík í fjögurra sæta flugvél af gerðinni Cessna 172. Ferðinni var heitið til Akureyrar þar sem þeir félagar hugðust heimsækja góða vini og gamla skólann sinn, MA, þar sem halda átti skemmtun um kvöldið.

Systur Ragnars og Braga, Guðrún Ragnars til vinstri og Laufey Egilsdóttir, voru í forsvari fyrir verkefnið.

Áætlað var að lenda á Akureyrarflugvelli um kl. 19.00. Veður var ágætt í Reykjavík en versnaði þegar norðar dró og ferðinni lauk þannig að flugvélin brotlenti á Öxnadalsheiði, skammt fyrir ofan Bakkasel. Þar lauk ævi þessara efnilegu, ungu manna. Þeir fundust morguninn eftir.

Mikill harmur var kveðinn að fjölskyldum fjórmenninganna og vinum eins og nærri má geta. „Þetta var alveg hræðilegt og hefur verið mjög þungbært í hugum manna alla tíð,“ sagði Laufey, systir Braga heitins, við Akureyri.net. Laufey segir það lengi hafa blundað í ættingjum þeirra sem létust að koma upp minnisvarða. Hún sé því glöð að verkinu sé lokið og sérlega ánægð með hve steinninn er vel heppnaður og fallegur.

Ingimundur Friðriksson flutti ávarp áður en minnisvarðinn var afhjúpaður. Drengirnir eru Aron Björn Ólafsson, til vinstri, og Eysteinn Ernir Eiríksson.