Fara í efni
Fréttir

Minnir á að lausaganga hunda er bönnuð

Lausaganga katta verður bönnuð á Akureyri frá 1. janúar 2025 eins og frægt er orðið. Það var samþykkt á bæjarstjórnarfundi síðastliðinn þriðjudag.

Sigfús Ólafur Helgason, hestamaður á Akureyri, fagnar ummælum bæjarfulltrúa á fundinum þess efnis að leggja þurfi áherslu á „að fylgja eftir þeim samþykktum sem í gildi eru“ sem hann segir að hljóti að eiga við um lausagöngu almennt, þar á meðal lausagöngu hunda í hesthúsahverfum og á reiðvegum „enda hefur skapast mikil slysahætta af lausum hundum,“ á þeim stöðum.

Þetta segir Sigfús Ólafur í grein sem hann sendi Akureyri.net til birtingar. Hann nefnir að þrátt fyrir bannið þráskallist nokkrir hundaeigendur, sem líka séu hestamenn, við því að fara eftir reglum.

Hann veltir líka fyrir sér í ljósi þess „að nýverið var ákaflega farsælum dýraeftirlitsmanni Akureyrar til fjölda ára, Þengli Stefánssyni, sagt upp störfum og starfið lagt niður, hver muni þá taka við vörslusviptingu hunda nú sem hér eftir og einnig þá vörslusviptingu katta sem verða lausir eftir árið 2025.“ 

Smellið hér til að lesa grein Sigfúsar.