Fara í efni
Fréttir

Minningarmót um Gylfa Þórhallsson í Hofi

Minningarmót um Gylfa Þórhallsson í Hofi

Minningarmót um Gylfa Þórhallsson verður haldið á Akureyri um Hvítasunnuhelgina. Gylfi var lengi formaður Skákfélags Akureyrar og margaldur Akureyrarmeistari og Skákmeistari Norðlendinga. Að minnsta kosti tveir stórmeistarar verða á meðal keppenda.

„Nú er rúmlega eitt ár er liðið frá andláti Gylfa Þórhallssonar, heiðursfélaga Skákfélags Akureyrar. Gylfi var um áratuga skeið einn öflugasti skákmeistari félagsins,“ segir í tilkynningu frá Skákfélagi Akureyrar.

„Hann varð skákmeistari Akureyrar alls 13 sinnum og skákmeistari Skákfélags Akureyrar 9 sinnum og jafnoft Skákmeistari Norðlendinga. Gylfi var um árabil burðarásinn í félagsstarfi skákmanna; hann var formaður Skákfélags Akureyrar í 14 ár og sat í stjórn félagsins í nærfellt þrjá áratugi. Um áratuga skeið það hann fyrirliði félagsins á Íslandsmóti skákfélaga og telfdi fleiri skákir í þeirri keppni en nokkur annar. Þá var hann eftirminnilegur leiðtogi í barna- og unglingastarfi hér í bænum og kom mörgum ungu áhugafólki til þroska í skáklistinni. Fyrir hans tilverknað tókst að laða ungt fólk til liðs við félagið hafa staðið sig vel á og unnið til margra titla,“ segir í tilkynningunni.

„Skákfélag Akureyrar og samfélagið allt stendur því í mikilli þakkarskuld við Gylfa Þórhallsson.

Til að heiða minningu Gylfa Þórhallssonar verður efnt til glæsilegs minningarmóts dagana 21.-24. maí nk. Telft verður í Menningarhúsinu Hofi og hefst taflið kl. 19.00 á föstudagskvöldið. Þegar hafa um 40 keppendur skráð sig til þátttöku, þar á meðal stórmeistararnir Jóhann Hjartarson og Þröstur Þórhallsson. Gera má ráð fyrir að endanlegur fjöldi þátttakenda verði milli 60 og 70.

Þessi mikla þátttaka sýnir vel þann sess sem minningin um Gylfa Þórhallsson hefur meðal skákáhugamanna.“

Smellið hér til sjá frekari upplýsingar um mótið

Smellið hér til að lesa greinina Gylfi Þórhallsson - sögur og skákir á vef Skáksambands Íslands.