Fara í efni
Fréttir

Minni umferð en „við getum vel við unað“

Haldið inn í göngin í morgun - á tveggja ára afmælinu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Umferð var 19,5% minni um Vaðlaheiðargöng á nýliðnu ári en árið 2019. Bílar fóru 414.000 sinnum í gegnum göngin en árið áður voru ferðirnar um 100.000 fleiri. Tvö ár eru í dag síðan göngin voru formlega tekin í notkun.

Að meðaltali voru 1.135 ferðir um göngin á sólarhring á árinu 2020. Yfir sumarmánuðina voru ferðirnar að jafnaði 1.850 á sólarhring en 726 yfir vetrarmánuðina. Árið 2020 voru um 96% ökutækja sem ekið er um Vaðlaheiðargöng fólksbílar, 2% millistórir bílar (3,5 - 7,5 tonn) og 4% stórir bílar (stærri en 7,5 tonn), skv. upplýsingum frá Vaðlaheiðargöngum ehf.

Samkvæmt talningu Vegagerðarinnar voru 107 þúsund ferðir ökutækja um Víkurskarð á árinu 2020 og dróst umferð þar saman um 38,6% frá árinu 2019. Til samanburðar leiddi talning Vegagerðarinnar í ljós 14% minni umferð á hringveginum en árið 2019 en á Norðurlandi nam samdrátturinn á árinu 25,4%.

„Ef miðað er við Covid og í hvað stefndi í byrjun faraldursins megum við vel við una. Samdrátturinn í göngunum er til dæmis mun minni en á hringveginum að meðaltali. Við vitum að við eigum inni meiri umferð,“ sagði Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga ehf, við Akureyri.net í dag.

Stytting um 5000 hringi um landið!

Ef borin er saman umferð um Vaðlaheiðargöng annars vegar og Víkurskarð hins vegar kemur í ljós að hlutfallslega fleiri óku um göngin á árinu 2020 en árið 2019. Af heildarumferð milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals fóru 80% vegfarenda um Vaðlaheiðargöng en til samanburðar var talan 75% 2019.

Með akstri um Vaðlaheiðargöng í stað vegarins um Víkurskarð styttist leiðin milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals um 16 km. Það þýðir að heildarstytting eða sparnaður í akstri á árinu 2020, miðað við að aka Víkurskarð, er ríflega 6,6 milljónir km sem er meira en 5000 hringir í kringum Ísland.

Veggjald í Vaðlaheiðargöng er greitt í gegnum skráningu á veggjald.is þar sem notandi skráir bílnúmer og greiðslukort. Myndavélar í göngunum greina bílnúmerið og sjálfkrafa er síðan gjaldfært af kortinu þegar ekið er í gegn. Ef bíll er ekki skráður er ferðin innheimt í heimabanka eiganda bílsins og leggst þá 400 kr. bankainnheimtukostnaður við stakt gjald.

Í tilkynningu frá Vaðlaheiðargöngum kemur fram að umferðin gekk vel í fyrra og án óhappa. Í dag eru 28.700 virkir notendur í grunni Veggjalds.is og skráð ökutæki eru 97.250.

Klippt á borðann við formlega vígslu Vaðlaheiðarganga fyrir tveimur árum - 12. janúar 2019. Elstu íbúar sveitarfélaganna við hvorn gangnamunna klipptu; Friðrik Glúmsson, sem varð 100 ára um sumarið, úr Þingeyjarsveit og Hólmfríður Ásgeirsdóttir, 92 ára, úr Svalbarðsstrandarhreppi. Ljósmynd: Vaðlaheiðargöng.