Fara í efni
Fréttir

Minna um sjúkraflug en síðustu ár – 619 ferðir

Á nýliðnu ári voru sjúkraflug á vegum Mýflugs alls 619, sem kann að hljóma mikið en er þó töluverð fækkun frá því undanfarin ár. Árið 2017 voru farin 800 sjúkraflug, 808 árið 2018 og 2019 fór Mýflug í 764 slíkar ferðir, að sögn Leifs Hallgrímssonar, framkvæmdastjóra Mýflugs.

„Covid er skýringin á fækkun ferða. Það er mikið minna um sjúkraflug almennt, Landhelgisgæslan fór mun færri ferðir en síðustu ár og sjúkraflutningar á landi voru líka miklu færri, að minnsta kosti hér norðanlands,“ sagði Leifur við Akureyri.net í morgun.

„Það var miklu minna umleikis í þjóðfélaginu vegna Covid, allt miklu rólegra og nánast engir túristar stóran hluta ársins.“

Lang flest sjúkraflug Mýflugs snúast um að flytja fólk á milli sjúkrastofnana. „Af þessum 619 ferðum eru um 350 í fyrsta eða öðrum forgangi, sem sagt mjög alvarleg atvik, hjartaáfall, heilablóðfall og þess háttar, þar sem flutningstíminn skiptir höfuðmáli, en töluverð fækkun varð í heimflutningum eftir aðgerðir. Landsmenn hafa heyrt mikið um fráflæðisvanda Landspítalans; þar er lögð mikil áhersla á að koma fólki á spítala í heimabyggð og við fljúgum mikið með fólk til Akureyrar, Ísafjarðar, Vestmannaeyja, Egilsstaða og Norðfjarðar. Töluverð fækkun varð í valkvæðum aðgerðum á árinu eins og kunnugt er, þannig að mun minna var um slík flug.“

Mýflug er með tvær sjúkraflutningavélar af gerðinni Beechcart King Air 250. Félagið fékk nýja vél á fyrri hluta ársins og seldi þá elstu í haust. „Við erum með tvær vélar sem báðar eru með búnað fyrir tvo sjúklinga. Vélarnar eru til taks allan sólarhringinn, alla daga ársins,“ segir Leifur Hallgrímsson.