Fara í efni
Fréttir

Míla býður upp á tífaldan nethraða

Erik Figueras Torras forstjóri Mílu á Akureyri í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Fjarskiptafyrirtækið Míla býður Akureyringum von bráðar tíföldun internethraða, svokallað 10x, eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag. Erik Figueras Torras, forstjóri Mílu,  segir að með þessu sé fyrirtækið að bjóða sína bestu þjónustu í bæjarfélaginu, þjónustu sem felur í sér meiri hraða og betri upplifun notenda en hingað til.

„Við þurfum að horfa fram á veg í uppbyggingu okkar fjarskiptainnviða bæði til fyrirtækja og heimila. Þörfin fyrir öflugri nettengingar heimila eykst hratt með hverju ári,“ segir forstjóri Mílu um tíföldun internethraðans. „Heimilum á Akureyri mun nú standa til boða, gegnum fjarskiptafélög þeirra, tenging með internethraða allt að 10 gígabita á sekúndu í báðar áttir. Það er tíföldun þess sem best þekkist í dag og er gríðarstórt stökk fyrir tengingar heimila,“ segir Erik.

Allt að 20 tæki á heimili

Í sumar kynnti Míla viðskiptavinum sínum, fjarskiptafyrirtækjunum á Íslandi, að fyrirtækið byði þennan tífalda hraða á ljósleiðara Mílu til heimila. Sú þjónusta yrði fyrst í boði á höfuðborgarsvæðinu en síðar myndi landsbyggðin bætast við. Sú uppbygging er nú hafin á Akureyri.

Tíföldun hraða, afkastaaukning og innleiðing nýrrar tækni í ljósleiðarakerfum Mílu er afar þýðingarmikil fyrir heimilin í landinu, segir Erik Figueras Torras. Sjónvarpsþjónusta í miklum gæðum, leikjaspilun, eða fjarvinna með mikið gagnamagn og gagnvirkni krefjist sítengingar við net og mikils hraða. Með 10x sé hægt að tengja mörg tæki við netið á samtímis án þess að það hægi á sér.

Áætlað hefur verið að á næstu árum séu allt að 20 virk tæki á hverju heimili sem krefjast nettengingar: símar og tölvur ásamt sjónvarpstækjum og myndlyklum, ryksugu vélmennum og þar fram eftir götunum. Myndstreymi 4K eða 8K gæðum, gervigreind, sýndarheimar og aukin notkun skýjalausna kallar á betri tengingar, að sögn forsvarsmanna Mílu.

Rík þörf fyrir 10x

Þörfin og tækni fyrir 10 gígabita nethraða á sekúndu er því handan við hornið, að þeirra mati. Marinó Tryggvason, stjórnarformaður Mílu og Erik forstjóri, segja að endabúnaður fyrir heimili fyrir svo kraftmikla tengingu sé þegar í boði og á næstu mánuðum sé von á að úrval á slíkum búnaði aukist enn frekar. Framleiðendur séu á fullu við þróun  og þegar búnaðurinn verði orðinn aðgengilegur, séu ljósleiðarakerfi Mílu tilbúin.

10x notast við nýja tækni (XGS-PON, sem á ensku kallast 10 gigabit symmetrical) sem nýtir fyrirliggjandi ljósleiðaralagnir heimila sem tengjast ljósleiðara Mílu. Uppfæra þarf búnað á báðum endum ljósleiðarans til að geta veitt svo mikinn hraða og hefur Míla þegar uppfært sín megin, og búnaður verður uppfærður hjá notanda eftir því sem óskað er eftir því.

Á vef Mílu eru ýmsar upplýsingar um fyrirbærið 10x – sjá hér