Fara í efni
Fréttir

Mikilvægt að fá aftur traust almennings

Mikilvægt að fá aftur traust almennings

Anna Hildur Guðmundsdóttir er nýr formaður SÁÁ – Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann – eins og Akureyri.net greindi frá í gærkvöldi. Hún gegnir embættinu fram á vor, þegar aðalfundur verður haldinn en segir ekki ljóst hvort hún sækist eftir formennsku áfram.

Anna Hildur hefur verið tvö ár í níu manna framkvæmdastjórn samtakanna en í aðalstjórn eru 48 manns.

„Það var ekki í framtíðarplönum að verða formaður SÁÁ,“ sagði Anna Hildur við Akureyri.net. Nefndi að hún búi á Akureyri en tók fram að hún yrði ekki framkvæmdastjóri samtakanna samhliða formennsku, eins og hefur tíðkast. Verkefnastjóri verði ráðinn tímabundið til að sinna starfi framkvæmdastjóra og búsetan skipti ekki máli, auðvelt verði að sinna formennsku héðan.

Eftir að formaður SÁÁ sagði af sér á dögunum kom upp krísa í samtökunum, eins og nýkjörinn formaður orðar það. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, stjórnarmaður ákvað að gefa kost á sér til formennsku og var mikil ánægja með það að sögn Önnu Hildar. „Þegar Þóra Kristín ákvað svo að draga framboð sitt til baka kom upp önnur krísa; það er erfitt fyrir einhvern sem ekkert þekkir til samtakanna að verða formaður svo ég ákvað að taka skrefið og bjóða mig fram,“ segir hún.

SÁÁ hefur verið í mótbyr undanfarið en Anna Hildur bendir á að það sé vegna hegðunar eins manns. Starfsemi samtakanna gangi mjög vel,  þau sinni því gríðarlega mikilvæga starfi að hjálpa alkóhólistum og aðstendendum þeirra. „Samtökin vinna frábært starf, reka sjúkrahús og göngudeildir og það er mik­il­vægt að þau geti haldið áfram að ein­blína á þau verkefni.“

Orðsporið skiptir öllu máli

Starfsemi SÁÁ og trúverðugleiki er það sem mestu máli skiptir, segir formaðurinn, og frábæru starfi beri að halda á lofti. Samtökin séu regnhlíf sem sjái um að reka starfsemina en stjórnarmenn komi ekki að neinu leyti að meðferðarstarfinu, það sé í frábærum höndum Valgerðar Rúnarsdóttur yfirlæknis. „Það er mikilvægt að vinna aftur traust almennings því samtökin stóla á íslensku þjóðina. SÁÁ er á fjárlögum en stjórnin vinnur sífellt að fjáröflun til að hægt sé að hjálpa fleirum en samningurinn við ríkið gerir ráð fyrir. Orðspor samtakanna skiptir öllu máli.“

Einnig hefur blásið á móti upp á síðkastið að því leyti að Sjúkratryggingar Íslands hafa krafið SÁÁ um endurgreiðslu rúmlega 170 milljóna sem greiddar hafi verið fyrir þjónustu sem ekki hafi verið í samræmi við gildandi samninga. Anna Hildur segir að framundan sé samráðsfundur vegna þessa og hún sé sannfærð um að málið leysist farsællega.

Staða samtakanna er mjög góð, þrátt fyrir að blásið hafi í mót, segir Anna Hildur. „Já, staðan er góð og það er einhugur í stjórninni og framkvæmdastjórninni. Samtökin hafa lagt gríðarlega mikið til samfélagsins, við stöndum vörð um alkóhólista og aðstendur þeirra og hjá SÁÁ er mikill mannauður; mjög margt gott fólk vinnur þar og hefur lagt mikið á sig í gegnum árin og samtökin sem slík standa stolt.“