Fara í efni
Fréttir

Mikill áhugi á flugi til Amsterdam

Kristinn Þór Björnsson, markaðsstjóri Ferðaskrifstofu Akureyrar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Kristinn Þór Björnsson, markaðsstjóri Ferðaskrifstofu Akureyrar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Norðlendingar hafa sýnt beinu flugi frá Akureyri til Amsterdam mikinn áhuga, að sögn Kristins Þórs Björnssonar, markaðsstjóra Ferðaskrifstofu Akureyrar. Eftir áramót heldur hollensk ferðaskrifstofa áfram þar sem frá var horfið eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á.

Tíu ferðir verða á milli Schiphol flugvallar í Amsterdam og Akureyrar í febrúar og mars, á vegum hollensku ferðaskrifstofunnar Voigt Travel – flogið verður tvisvar í viku á fimm vikna tímabili.

Voight Travel bauð fyrst upp á flug þessa leið árið 2019 og fór nokkrar ferðir snemma árs í fyrra en vegna kórónuveirufaraldursins varð minna úr en upphaflega var áætlað.

Mjög mikilvægt

„Við verðum vör við mikinn áhuga á þessum ferðum og ein er þegar uppseld,“ sagði Kristinn Þór Björnsson í samtali við Akureyri.net í gær. Kristinn bendir á að Ferðaskrifstofa Akureyrar hafi unnið með Voigt Travel frá fyrsta degi og telur afar mikilvægt að bjóða flug frá Akureyri út í heim. „Við kaupum ákveðinn fjölda flugsæta til létta undir með Hollendingunum, tökum vissulega áhættu en teljum mjög mikilvægt að efla millilandaflug frá Akureyri og viljum leggja okkar af mörkum í þeim efnum.“

Markaðsstjórinn segist finna vaxandi áhuga á beinu flugi út í heim frá Akureyri. „Við erum með tvær ferðir til Tenerife í haust, sem seldust báðar upp en reyndar eru örfá sæti laus í aðra þeirra vegna forfalla. Það virðist kveikja í ansi mörgum þegar þeir heyra um beint flug frá Akureyri.“

Kristinn Þór er hrifinn af Hollandi; segir bæði Amsterdam spennandi borg og landið allt áhugavert. Hann bendir einnig á að frá Schiphol flugvelli er mögulegt að fljúga til fjölmargra borga víða um heim.

Sérstaða

„Sem ferðaskrifstofa þurfum við stöðugt að skapa okkur sérstöðu,“ sagði Cees van den Bosch, forstjóri Voigt Travel, þegar hann kom í fyrsta fluginu frá Amsterdam til Akureyrar í maí 2019.

„Ísland hefur aldrei verið vinsælla, en aðallega fyrir stutt stopp sem viðkomustaður, og þessi magnaði áfangastaður á betra skilið en það. Þess vegna höfum við vísvitandi valið að fljúga til Akureyrar til að gera farþegum okkar kleift að ferðast strax utan alfaraleiða og taka sér tíma til að kanna landið. Norðurhluti Íslands er enn að miklu leyti ósnortinn og þar má finna alveg jafnmikið af fossum, svörtum ströndum, eldfjöllum og leirböðum og á Suðvesturlandi,“ sagði van den Bosch á sínum tíma og ekki hefur dregið úr áhuga félagsins.