Fara í efni
Fréttir

Mikil slysagildra vegna rafbílavæðingar

Gunnar Kr. Jónasson brákaði vinstri höndina og hlaut skrámur hér og þar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímss…
Gunnar Kr. Jónasson brákaði vinstri höndina og hlaut skrámur hér og þar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Gunnar Kr. Jónasson, myndlistarmaður, varð fyrir óskemmtilegri reynslu á dögunum þegar hann flæktist í snúru sem lá frá íbúðarhúsi og yfir gangstétt í þeim tilgangi að hlaða rafbíl. Gunnar skall á andlitið, hlaut sár á nef, enni, höku og víðar og brákaði vinstri höndina. Hann er vægast sagt ósáttur við það hvernig málum er háttað, vill vekja athygli fólks á hættunni og hvetur Akureyrarbæ til að grípa inn í áður en alvarlegri slys verða.

Vantar innviði

„Mér finnst undirbúningur rafbílavæðingar hér á landi ekki ósvipaður og þegar Íslendingur bjuggu sig undir ferðamannaflóðið sem yfir okkur rann; undirbúningur innviða var í raun enginn, allt var látið gerast af sjálfu sér, vegir og ferðmannastaðir því sem næst óundirbúnir fyrir allan fjöldann og það mikla álag sem honum fylgdi. Fjöldi staða og vegakerfið varð að slysagildrum og eftir nokkur sumur með síauknum ferðamannastraumi litu áhugaverðir staðir út eins og öll hross í Skagafirði hefði verið rekin þangað í rigningu og sudda og látan stappa um nokkurn tíma!“

Rafbílavæðingin fer eins af stað, segir Gunnar. „Allir ætla sem skjótast að fá sér rafbíl; spara í eldsneyti, vera með í að minnka útblástur og eru komnir af stað þótt skipulagning og vinna við innviði rafbílamennskunnar sé nánast hvergi komin í gang, til dæmis möguleikinn á að hlaða bíla við íbúðarhús þar sem ekki eru bílastæði inni á lóðum. Þessar aðstæður eru ansi víða eins og ég kynntist hér í bæ á gangstétt sem liggur í austur-vestur í götu sem ber nafnið Sómatún í Naustahverfi.

Ég fór þar í kvöldgöngu ásamt konunni minni fyrir nokkrun dögum og viti menn, fyrir framan eitt fjórbýlishúsið steinligg ég á gangstéttinni; hafði flækt fótinn í millisnúru sem íbúi í húsinu lagði út um glugga og þvert yfir gangbrautina til þess að hlaða bílinn sinn. Ég skall með höfuðið í götuna, fékk sár á nef, enni og höku, sár á á bæði hné og vinstri hönd stokkbólgnaði; hún reyndist brákuð og var sett í gifs og nú er beðið í tvær vikur í viðbót, þar til kemur í ljós hver örlög handarinnar verða.“

„Það gera þetta allir!“

„Eftir að hafa skutlað mér á bráðamóttökuna um kvöldið fer konan mín og vekur athygli bíleigandans á því að hann hafi valdið slysi með því að leggja millisnúru yfir gangstéttina. Svarið einfalt: Ég skil vel að þið séuð reið en það bara gera þetta allir! Áfram lá millisnúran á sama stað nokkrum stundum síðar, hlóð bílinn og gerir enn.“

Gunnar vill vekja athygli á þeirri slysagildru sem snúrurnar eru fyrir fólk, „litla sem stóra gangandi eða hlaupahjólandi vegfarendur, og ekki hefur hvarflað að bíleigandanum að fjarlægja snúruna þótt athygli væri vakin á því til hvers þetta dómgreindarleysi hefði leitt. Bíleigandinn situr við sinn keip og sína snúru og hleður bílinn, því hann hafði í að eigin mati í raun og veru ekki gert mér neitt – er bara að gera eins og aðrir.“

Grípa þarf inn í

„Eiganda gangstéttarinnar, Akureyrarbæ, hvet ég eindregið til að horfa alverlegum augum á gerðir þeirra bæjarbúa sem haga sér á þennan hátt við rafbílavæðinguna og grípa strax til aðgerða.“

Gunnar segir að hugsanlega megi koma strax upp hleðslustöðvum miðsvæðis í hverfum þar sem ekki er möguleiki á að hlaða bíla á öruggan hátt við hús, þar til húseigendur hafi fengið svigrúm til að koma málum í lag, í það minnsta þannig að samborgarar þeirra verði ekki í lífshættu vegna millisnúrufargans á gangstéttum.

„Það þarf að grípa inn í þessa vitleysu án tafar, áður en alvarlegri slys verða. Þetta hefur fengið að viðgangast allt of lengi og nú er einmitt ráð að setja í gang millisnúru-gangstéttavörslu og þá á kvöldin, því hjarðhegðun fólks virðist svo sterk að ef einhver sýnir af sér dómgreindarleysi af þessu tagi þá réttlæta aðrir sínar gerðir og vitleysu með því!“

Snúran sem Gunnar flæktist í; hún liggur enn yfir gangstéttina eins og þarna má sjá.