Fara í efni
Fréttir

Mikið skemmt en ekkert bætt – viltu aðstoða?

Miklar skemmdir urðu í Braggaparkinu á Eyrinni þegar flæddi þar inn í óveðrinu um daginn. Braggaparkið er frábær og vinsæl aðstaða sem brettameistarinn Eiki Helgason kom upp og hann biðlar nú til fólks um stuðning við að koma öllu í samt lag.

„Það hefur varla farið fram hjá neinum að Braggaparkið fór bókstaflega á kaf þegar sjórinn ákvað að kíkja í heimsókn með tilheyrandi tjóni sem hefur núna verið staðfest að fæst ekki bætt,“ segir Eiki.

„Ég er þó ekki af baki dottinn og stefni á að opna aftur með smávægilegum lagfæringum en kostnaðurinn er mikill og í raun ofviða fjárhag Braggaparksins,“ segir hann. „Þess vegna langar mig að athuga hvort það leynist einhverjir velgjörðarmenn þarna úti sem hafa áhuga á að styrkja uppbygginguna og stuðla að áframhaldandi innanhússaðstöðu fyrir hjólabretti, línuskauta, hlaupahjól og BMX-hjól á Akureyri.“

Áhugasamir geta styrkt uppbygginguna hér eða haft samband við mig Eika beint í sína 847-8598. „Ég minni einnig á að hér á heimasíðunni er hægt að kaupa flottar vörur sem hjálpar líka til við uppbygginguna. Margt smátt gerir eitt stórt,“ skrifar Eiki á vef Braggaparksins.