Fara í efni
Fréttir

Mikið fjör er KA U og Þór skildu jöfn – MYNDIR

Síðasta skot leiksins. Þórsarinn Brynjar Hólm Grétarsson þrumar að marki nokkrum sekúndum fyrir leikslok en skotið geigaði þannig að liðin skildu jöfn. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Ungmennalið KA og Þór skildu jöfn, 18:18, í gærkvöldi í Grill66 deildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Þórsarar eru þar með komnir með þrjú stig eftir tvo leiki í deildinni en KA-strákarnir fengu þarna sitt fyrsta stig.

Þegar komið var að KA-heimilinu leyndi sér ekki að áhuginn á leiknum var mikill; það var einungis á færi mjög hugmyndaríkra ökumanna að finna bílastæði í grenndinni! Áhorfendapallarnir voru þétt setnir og líflegir stuðningsamannahópar liðanna héldu uppi frábærri stemningu.

Leikurinn var hörkuspennandi þótt ekki væri mikið skorað, KA-strákarnir voru með nauma forystu lengi vel, Þórsarar komust yfir á lokakaflanum en rimman endaði með jafntefli. 

Viðar Ernir Reimarsson gerði síðasta mark Þórs –  18:17 – þegar tæpar fimm mínútur voru eftir en Arnór Ísak Haddsson jafnaði fyrir KA þegar tæplega tvær og hálf mín. var eftir. Þórsarar áttu síðustu sóknina, Brynjar Hólm Grétarsson þrumaði að marki en skotið geigaði og því sættust liðin á skiptan hlut.

Arnór Ísak Haddsson gerði 9 mörk fyrir KA og var lang markahæstur. Brynjar Hólm Grétarsson var markahæstur Þórsara með 5 mörk og þeir Viðar Ernir og Halldór Kristinn Harðarson gerðu 4 mörk hvor.

  • Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum

Þórsarinn Sigurður Ringsted Sigurðsson og KA-maðurinmn Hilmar Bjarki Gíslason.

Viðar Ernir Reimarsson gerði síðasta mark Þórs, kom liðinu í 18:17 þegar tæpar fimm mínútur voru eftir.

Arnór Ísak Haddsson jafnar fyrir ungmennalið KA úr víti, 18:18. Þetta var síðasta mark leiksins þótt enn væru tæplega tvær og hálf mínúta eftir.