Fara í efni
Fréttir

Meistararnir komust auðveldlega í úrslit

Lið KA/Þórs ásamt þjálfurum eftir sigurinn á FH í kvöld. Ljósmynd: Ágúst Stefánsson.

Lið KA/Þórs komst mjög auðveldlega í bikarúrslit kvenna í handbolta í kvöld með sigri á FH, 33:16, eftir að staðan í hálfleik var 20:7. Leikið var á heimavelli Hauka í Hafnarfirði og þar fer úrslitaleikurinn fram á laugardag; Fram sigraði Val í kvöld, 22:19, þannig að KA/Þór mætir Fram í úrslitum. Sú viðureign hefst klukkan 13.30 á laugardaginn.

Tölurnar segja í raun allt sem segja þarf um leik KA/Þórs og FH. Munurinn er einfaldlega þessi á liðunum; FH leikur í neðri deild Íslandsmótsins svo nánast ómögulegt var að Hafnfirðingarnir næðu að standa uppi í hárinu á Stelpunum okkar, Íslandsmeisturunum frá því í vor. Það var aðeins í blábyrjun sem leikurinn var jafn en svo skellti akureyrska vörnin í lás og FH-ingum var refsað með linnulitlum hraðaupphlaupum.

Í seinni hálfleik sat megnið af hefðbundnu byrjunarliði KA/Þórs lengstum á varamannabekknum og aðrir leikmenn fengu kærkomið tækifæri. 

Martha Hermannsdóttir gerði 7 mörk í kvöld, þar af 5 úr víti. Rakel Sara Elvarsdóttir gerði 6, Unnur Ómarsdóttir og Aldís Ásta Heimisdóttir 4 hvor, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 3, Ásdís Guðmundsdóttir, Sofie Soberg Larsen, Telma Lísa Elmarsdóttir og Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 2 hver og Rut Jónsdóttir 1. Matea Lonac varði 10 skot og Sunna Guðrún Pétursdóttir 6.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna