Fara í efni
Fréttir

Meðferðarheimilið Bjargey opnað

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Ólína Freysteinsdóttir, forstöðukona Bjargeyjar, þegar ráðherra klippti á borða í gamla skólahúsinu á Laugalandi í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Nýtt ríkisrekið meðferðarheimili, Bjargey, var formlega opnað á Laugalandi í Eyjafjarðarsveit í dag að viðstöddum mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni. Á staðnum var á sínum tíma einkarekið meðferðarheimili en Bjargey er rekin af Barna- og fjölskyldustofu.

Heimilið er ætlað stúlkum og kynsegin og meginmarkmiðið er að veita sérhæfða meðferð vegna alvarlegra hegðunarerfiðleika, vímuefnaneyslu og meintra afbrota. 

Starfsemin hófst 1. júní. og á heimilinu eru nú þegar tvær stúlkur en fjórir eða fimm geta dvalið þar hverju sinni. Fram kom í dag að áhersla verði lögð á að búa þeim einstaklingum sem á heimilinu dvelja öruggt skjól og meðferð við hæfi og að leitast verði við að þeir sem verða í meðferð á staðnum fái tækifæri til að vaxa og dafna í heilbrigðu umhverfi.

Áhersla verður lögð á einstaklingsmiðaða nálgun í samræmi við þarfir unglinga sem eiga við alvarlegan hegðunarvanda að stríða. Stuðst er við aðferðir sem byggja á atferlismótun, hugrænni atferlismeðferð, áfallamiðuðum stuðningi, þjálfun í félagsfærni, sjálfsstjórn og félagsvænum viðhorfum. Unnið er í nánu samstarfi við aðstandendur þar sem meginmarkmiðið er að aðlaga einstakling aftur heim til forsjáraðila.

Forstöðumaður hins nýja heimilis er Ólína Freysteinsdóttir, BA í nútímafræðum og MA í fjölskyldumeðferð og náms- og starfsráðgjöf. Auk hennar starfa sem stendur níu aðrir á Bjargey, fólk með fjölbreytta reynslu og menntun.

Ásmundur Einar Daða, mennta- og barnamálaráðherra, klippir á borða í dyragætt við stóran spegil! Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, Ásmundur Einar og Ólína Freysteinsdóttir forstöðumaður Bjargeyjar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Gamli húsmæðraskólinn á Laugalandi, þar sem meðferðarheimilið Bjargey er til húsa.