Fara í efni
Fréttir

Meðalhiti á Íslandi aldrei verið hærri en á Akureyri í júlí

Börn að leik á tjaldsvæðinu á Hömrum í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Meðalhiti á Akureyri í júlí var 14,3°C og á Torfum í Eyjafjarðarsveit tæplega það. Hitinn á Akureyri er Íslandsmet því meðalhiti eins mánaðar hefur aldrei farið yfir 14 stig í mælingarsögunni, að sögn Einar Sveinbjörnssonar veðurfræðings hjá Bliku og veðurvini Akureyri.net.

Einar segir þessar tvær veðurstöðvar, Akureyri og Torfur, hafa komist yfir 14 stigin og mögulega einhverjar stöðvar Vegagerðarinnar, en það eigi eftir að koma í ljós.

Einar segist láta Veðurstofunni eftir að skera úr um eldra hitametið – líklega hafi það verið 13,7 en þó hugsanlega 14,0°C. „En hvað sem því líður er þetta klárlega Íslandsmet af þessum toga,“ skrifar Einar á Facebook.

Meðalhitinn í júlí nú er heilu stigi meira en næst hlýjasti júlí á Akureyri, árið 1933. Þá var meðalhitinn í bænum 13,3°C. Eflaust verða þó nokkur stöðvarmet slegin, en þó ekki sunnan- og vestanlands, segir Einar. Í Reykjavík hafi júlíhitinn verið nærri meðallagi, úrkoma þó ekki nema helmingur af meðalúrkomu og sólskinsstundir markvert færri en að jafnaði.

„Fleira áhugavert á eftir að koma í ljós þegar júlí 2021 verður gerður upp á sinn hefðbundna hátt síðar í vikunni. M.a. það að hámarkshiti dagsins náði 20 stigum einhvers staðar á landinu alla daga nema einn í þesssum nýliðna júlímánuði,“ skrifar Einar Sveinbjörnsson.