Fara í efni
Fréttir

Markaðsviðburður á vegum Póstsins

Vilborg Ásta Árnadóttir, Margrét Jóna Kristmundsdóttir og Ósk Heiða Sveinsdóttir.

Pósturinn stóð fyrir markaðsviðburði á Akureyri í vikunni, þar sem samankomið var markaðsfólk og fyrirtækjaeigendur af svæðinu til að búa sig undir vertíðina fram undan, eins og það er orðað í tilkynningu frá Póstinum.

„Múlabergs-salurinn á Hótel Kea var þétt setinn og áhugi viðstaddra leyndi sér ekki,“ segir þar. „Þrír fyrirlesarar stigu í pontu og deildu ýmsum gagnlegum ráðum með áhorfendum. Ósk Heiða Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptavina hjá Póstinum, reið á vaðið. Erindi hennar fjallaði um ferðalag viðskiptavinarins í kaupferlinu, væntingar hans á því ferðalagi og hve mikilvægt sé að setja sig í hans spor þegar eitthvað fer úrskeiðis. Jafnframt varpaði hún fram þeirri spurningu hvernig megi bera kennsl á viðskiptavini framtíðarinnar.“

Margrét Jóna Kristmundsdóttir, eigandi Ohana Store á Akureyri, sagði frá því hvernig er fara út í eigin rekstur: „Það fylgir engin handbók með því hvernig á að hefja rekstur,“ sagði Margrét sem rekur barnavöruverslun og sagði frá því hvað hefur reynst þeim best þegar kemur að stóru netverslunardögunum. Meðal annars kom fram í máli hennar hve mikilvægt sé að upplýsa viðskiptavini vel, t.d. þegar sendingu seinkar.

Vilborg Ásta Árnadóttir, markaðsstjóri Póstsins, sló botninn í viðburðinn með umfjöllun um markaðssetningu á samfélagsmiðlum. Hún lagði áherslu á að velja þá miðla vel sem ná til markhópsins og fjallaði um hvernig megi nýta auglýsingafjármagnið sem best. Loks fór hún yfir uppsetningu á herferðum á samfélagsmiðlum og brýndi viðstadda til dáða.