Fara í efni
Fréttir

Maríuerla var kosin fugl ársins 2022

Maríuerla. Ljósmynd: Ingi Steinar Gunnlaugsson

Maríuerla var kjörin fugl ársins 2022. Hún sigraði með yfirburðum í kosningu sem Fuglavernd stóð fyrir annað árið í röð. Maríuerlan fékk 21% atkvæða. Niðurstaðan er kynnt í dag, á Degi íslenskrar náttúru.

Sjö fuglategundir um titilinn Fugl ársins, fimm þeirra höfðu kosningastjóra sem unnu ötult og óeigingjarnt kynningarstarf fyrir sína smávini, eins og það er orðað í tilkynningu frá Fuglavernd. Maríuerlan kynnti sig þó sjálf með hlýlegri nærveru sinni um allt land og þurfti ekki talsmann til að sigra, segir þar.

„Í öðru og þriðja sæti lentu hinir ólíku en glæsilegu fuglar, himbrimi og auðnutittlingur, með 14% atkvæða hvor um sig. Alls kusu 2100 mannns um fugl ársins 2022.“

Um maríuerluna

„Maríuerla dvelur í Afríku á veturna en algengt er að finna hana hér á landi í kring um mannabústaði, frá vori og fram á haust. Hún er nokkuð gæf og virðist trygg sínum heimahögum. Hún lifir á smádýrum sem hún veiðir á flugi eða á hlaupum, er iðin, sítifandi og flögrandi í leit sinni að æti,“ segir Fuglavernd.

„Maríuerlan hefur sigrað hjörtu Íslendinga fyrir löngu ef marka má ljóðabrot Guðfinnu Jónsdóttur frá Hömrum (1899-1946).“

Máríuerla

Sendir drottins móðir, Maríá,
mildar gjafir himni sínum frá.
Flaug úr hennar hendi vorsins perla,
heilög dúfa, lítil maríuerla.

Létt á flugi, kvik og fjaðurfín
flýgur hún um auðan geim til þín.
Í veggnum þínum vill hún hreiður búa,
varnarlaus á þína miskunn trúa.

Dável svarta húfan henni fer,
hneigir kolli ákaft fyrir þér.
Strá úr veðurbörðu, bleiku sefi
ber hún eins og friðargrein í nefi.

Sérhvert vor um varpa og bæjarhól
vappar söngvin erla á gráum kjól,
flögrar eins og bæn um geiminn bláa,
bæn fyrir hinum varnarlausa smáa.

Keppnin Fugl ársins

Markmiðið með keppninni er að draga fram og kynna nokkrar fuglategundir sem finnast hér á landi, fjalla um stofnstærðir, búsvæði, fæðuval og verndarstöðu. Með þessu vill Fuglavernd leggja sitt af mörkum til að efla fræðslu, samtal og umfjöllun um stöðu fuglastofna og um mikilvægi fugla í lífríkinu.

Í hópi þeirra 20 tegunda sem tóku þátt þetta árið og lesa má um á www.fuglarsins.is eru eftirfarandi tegundir sérstakar deilitegundir, sem þýðir að þær eru einskonar staðbundin fjölskylda sem verpur að stærstu eða öllu leiti hér á landi og hefur þróað með sér útlit frábrugðið öðrum stofnum, en þeir eru: auðnutittlingur, hrossagaukur, jaðrakan, lóuræll, músarrindill, rjúpa og skógarþröstur.

Þá eru þó nokkrar tegundir af þessum tuttugu á válista hér á landi samkvæmt Náttúrufræðistofnun Íslands: Lundi er í bráðri hættu, kjóinn er í hættu, himbrimi, hrafn, kría, súla og toppskarfur í nokkurri hættu og að lokum eru rjúpa og silfurmáfur í yfirvofandi hættu.