Fara í efni
Fréttir

Magnaður sigur KA á Haukum

Óðinn Þór Ríkharðsson gerði sigurmarkið úr vítakast eftir að leiktíminn rann út. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn unnu frækinn sigur á Haukum í kvöld, 30:29, í fyrstu rimmu liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í handbolta, Olís deildarinnar. Það var hornamaðurinn frækni, Óðinn Þór Ríkharðsson, sem gerði sigurmarkið úr vítakasti með síðasta skoti leiksins!

Haukur urðu í öðru sæti Olís deildarinnar en KA-menn í því sjöunda þannig að Haukur áttu „heimaleikjaréttinn“; fyrsti leikurinn var því í Hafnarfirði, sá næsti verður á Akureyri og hinni þriðji á Ásvöllum, heimavelli Hauka, ef til hans kemur. 

Leikurinn var í jafnvægi nánast allan tímann, en þegar fjórar mínútur voru eftir höfðu Haukar tveggja marka forystu, 27:25, og virtist með pálmann í höndunum. KA-menn sýndu hins vegar enn einu sinni að þeir eru ekki mikið fyrir að gefast upp! Þeir komust einu marki yfir, 29:28, þegar rúm mínúta var eftir, Haukar jöfnuðu en Óðinn nældi svo í víti á lokaandartökunum þegar brotið var á honum í hraðaupphlaupi. Leiktíminn rann út áður en hann tók vítið, að sjálfsögðu söng boltinn í netinu og KA-menn fögnuðu að vonum innilega.

Liðin mætast næsta í KA-heimilinu á mánudagskvöldið og með sigri tryggja KA-strákarnir sér sæti í fjögurra liða úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn.

Óðinn Þór Ríkharðsson og Ólafur Gústafsson voru atkvæðamestir KA-manna í kvöld; Óðinn Þór gerði 9 mörk, þar af 3 úr víti, og Ólafur gerði 7 mörk.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum

Smellið hér til að lesa beina lýsingu Vísis frá leiknum

Smellið hér til að lesa umfjöllun mbl.is