Fara í efni
Fréttir

Magnað sjónarspil við gosið – MYNDBAND

Skjáskot úr myndbandinu

Einar Guðmann og Gyða Henningsdóttir, sem hafa helgað sig náttúruljósmyndun undanfarin ár við góðan orðstír, hafa birt stórbrotið myndband frá eldgosinu á Reykjanesskaga á youtube rás sinni, Gudmann&Gyda.

Þau voru stödd í Grímsey þegar gosið hófst. „Við vorum að mynda þar og vorum í giftingu systurdóttur Gyðu. Það passaði að þegar við gengum um borð í ferjuna til að fara heim kom tilkynning um gos,“ segir Einar við Akureyri.net. Þau stöldruðu því ekki lengi við heima á Akureyri heldur drifu sig suður á bóginn.

Einar og Gyða gengu af stað í átt að gosstöðvunum síðla kvölds, dvöldu þar alla nóttina og urðu vitni að miklu sjónarspili.

„Þessu gosi svipar um margt til fyrri gosa, er þó stærra – meira um mosabruna sem býr til mikið drama í ljósmyndir – og það var klikkað að sjá sólarupprásina lita allt umhverfið. Magnað sjónarspil að sjá sólina á toppi Keilis og eldgosið fyrir neðan. Við náðum skotum af þessu augnabliki á drónana – vorum með tvo – og auðvitað ljósmyndum líka sem við eigum eftir að birta,“ segir Einar. 

Sjón er sögu ríkari! Smellið hér til að horfa á myndbandið.