Fara í efni
Fréttir

Lýsir þrautagöngu um heilbrigðiskerfið

Brynhildur Pétursdóttir og kötturinn Snúður í janúar 2017 þegar Brynhildur var til starfa hjá Neytendasamktanna á ný eftir að hafa verið alþingismaður frá 2013 til 2016. Myndin birtist þá með viðtali við hana í Morgunblaðinu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Brynhildur Pétursdóttir hefur sett upp vefsíðuna Kona í kerfi þar sem hún lýsir þrautagöngu sinni um íslenska heilbrigðiskerfið. Vefsíðan er hugsuð til að hjálpa öðrum konum með viðlíka vanda.

Brynhildur, sem er framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna og búsett á Akureyri, var í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í gær og rakti þar reynslu sína. Hún byrjaði fyrir 5-6 árum að finna fyrir óþægindum og stífni á mjaðmasvæði og átti hún á tímabili erfitt með að standa upprétt. Í leit sinni að bata fór hún á milli margra lækna og sjúkraþjálfara en endaði á því að leita sér aðstoðar erlendis.

Áhersla á meðferðir fram yfir greiningu

Í viðtalinu á Rás 1 fullyrti Brynhildur að gera mætti kerfið mun betra með því að leggja meiri áherslu á greiningu í stað meðferða. Þegar hún leitaði sér aðstoðar í Hollandi var hún sett í ítarlegt greiningarferli, nokkuð sem hún hafði ekki fengið á Íslandi. Hins vegar hafði hún verið send í allskonar meðferðir og æfingar en enginn vissi samt almennilega hvað hrjáði hana. „Að vera kona með stoðkerfisvanda á miðjum aldri er eitthvað sem þú vilt ekki lenda í,“ sagði Brynhildur m.a. en hér heyra viðtalið í heild sinni.

Deilir reynslusögu sinni

Reynslusögur annarra kvenna komu Brynhildi loks á rétt spor og því ákvað hún að deila sinni sögu á síðunni konaikerfi.com ef það myndi verða til þess að hjálpa öðrum í hennar stöðu. „Ég komst að því að mín saga er alls ekkert einsdæmi. Konum er hættara við stoðkerfisverkjum sem rekja má til mjaðmagrindar og getur meðganga og fæðingar haft mikið að segja. Á sama tíma er læknisfræðin karllæg og skilningur á þessu vandamáli afar lítill,“ segir Brynhildur á síðu sinni.