Fara í efni
Fréttir

Lyftan tilbúin til afhendingar

Endastöð nýju lyftunnar í Hlíðarfjalli - í 1014 metra hæð yfir sjávarmáli.
Endastöð nýju lyftunnar í Hlíðarfjalli - í 1014 metra hæð yfir sjávarmáli.

Komið er að því að Vinir Hlíðarfjalls, sem unnið hafa að uppsetningu nýrrar lyftu á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli undanfarin misseri, afhendi Akureyrarbæ lyftuna til notkunar. „Það á bara eftir að setja upp einhverjar merkingar en búið er að taka lyftuna út samkvæmt evrópskum stöðlum, allt sem snýr að öryggisþáttunum er í góðu lagi og lyftan svínvirkar,“ sagði Geir Gíslason, talsmaður Vina Hlíðarfjalls, við Akureyri.net í dag.

Bæjarráð Akureyrar féllst í morgun á þá tillögu stjórnar Hlíðarfjalls að taka við lyftunni með fyrirvara um að tímabundin heimild fáist frá Veðurstofu Íslands gagnvart núverandi verklagi við snjóflóðahættumat, vegna þess að ekki er búið að setja upp sprengjumastur nálægt brún Hlíðarfjalls, sem notað verður til þess að sprengja snjó úr brekkunni til þess að koma í veg fyrir snjóflóð. Búið er að steypa undirstöðurnar og mastrið er komið til landsins, en sérfræðingar frá Sviss þurfa að koma til að ljúka verkinu.

Bæjarráð samþykkti einnig í morgun að halda eftir hluta greiðslu til Stólalyftu ehf – félags sem Vinir Hlíðarfjalls stofnuðu utan um lyftuverkefnið – þar til öllum verkþáttum verður lokið. Þarna ræðir um áðurnefnt sprengjumastur, „og eins ef eitthvað kemur upp á við rekstur lyftunnar sem rekja megi til ófullnægjandi búnaðar eða frágangs,“ eins og segir í bókun bæjarráðs í morgun. Bærinn kaupir lyftuna af félaginu fyrir rúmar 300 milljónir króna. Upphaflega stóð til að bærinn leigði lyftuna en bæjaryfirvöld ákváðu síðar að hentugra væri að kaupa hana. 

Vonast er til að samningi Akureyrar og Vina Hlíðarfjalls um afhending ljúki innan tíðar og að lyftan verði tekin í notkun fljótlega.