Fara í efni
Fréttir

Lumarðu á plássi undir stríðsminjar VM?

Hópur sem kallar sig Varðveislumenn minjanna og Akureyri.net fjallaði um á dögunum hefur í sumar og haust bjargað merkilegum stríðsminjum frá glötun í Eyjafirði. Nú er svo komið að geymslupláss er orðið af skornum skammti og hópurinn vill því leita á náðir almennings eða bæjaryfirvalda í þeirri von að fá einhvers staðar inni.

„Allar ábendingar um rými til að hreinsa, pakka ofan í kassa og geyma stríðsminjar eru því vel þegnar,“ segir á vef Grenndargralsins sem Brynjar Karl Óttarsson, einn Varðveislumannanna, heldur úti.

Gripirnir sem komið hafa í ljós við rannsóknir í Eyjafjarðarsveit, í Hörgársveit og á Akureyri í sumar og haust eru viðbót við aðra gripi úr fórum setuliðsins sem VM hafa skotið skjólshúsi yfir undanfarin ár. „Í mörgum tilfellum er um kapphlaup við tímann að ræða vegna byggingaframkvæmda á svæðum þar sem setuliðið hafði bækistöðvar á stríðsárunum. Húsgrunnar, gatnagerð og jarðrask ýmis konar getur skaðað viðkvæmar minjar og valdið óafturkræfum skemmdum eins og dæmin sanna. Þá skiptir máli að hafa snör handtök svo bjarga megi því sem bjargað verður. Varðveislumenn hafa átt gott samstarf við verktaka á þeim stöðum þar sem framkvæmdir standa yfir. Fyrir velvilja þeirra hefur merkilegum minjum verið bjargað og þeim komið fyrir í öruggt skjól, í það minnsta tímabundið,“ segir á Grenndargralinu.

Í „stríðsminjasafni“ Varðveislumanna er margt merkilegra gripa, eins og það er orðað. Meðal þess sem litið hefur dagsins ljós á yfirstandandi vertíð er skotvopn og skotfæri, hermannahjálmur og stálmen (dog tags). „Nú í lok vertíðar er staðan hins vegar sú að takmarkað geymslupláss áhugasamra grúskara er farið að sprengja utan af sér. Skortur á aðstöðu til að hreinsa, flokka, skrá og geyma minjar er orðinn tilfinnanlegur, svo mjög að ekki gefst lengur kostur á að bregðast við öllum innsendum ábendingum um stríðsminjar sem mögulega liggja undir skemmdum á Eyjafjarðarsvæðinu,“ segir á Grenndargralinu.