Fara í efni
Fréttir

Loks rignir eftir þurrk í mánuð!

Svona er Akureyri í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Svona er Akureyri í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Akureyringar geta í dag gert að sínum upphafsorð nærri aldargamals bókardóms, þess frægasta í Íslandssögunni ef að líkum lætur:  Loksins, loksins. Margir voru farnir að þrá rigningu, sem kann að hljóma undarlega í eyrum einhverra, en gras og annar gróður var víða farinn að skrælna því varla hefur komið dropi úr lofti í heilan mánuð!

Samkvæmt upplýsingum Veðurstofu Íslands rigndi síðast að einhverju ráði 14. júní, þegar úrkoma á Akureyri mældist 3,1 millimetri. Dagana á eftir var örlítil rigning, þó innan við einn millimetra og þurrkatíðin hófst í raun 18. júní. Dagana 22. og 24. júní er úrkoma að vísu skráð 0,2 millimetrar, en fólk tekur vart eftir slíku. Frá 25. júní er síðan skjalfest að ekki hefur komið dropi úr lofti, í 20 daga – úrkoman skráð 0,0 millimetrar hvern einasta dag! 

Vert er að geta þess að þrátt fyrir rigningu er hlýtt á Akureyri. Óopinberir mælar sýna um 15 stiga hita. Strax á morgun verður sólin sýnileg á ný, eins og síðustu vikur og verður næstu daga, nema hvað spá gerir ráð fyrir fáeinum dropum úr lofti annað veifið næstu daga.

Útsýni bílstjóra sem gleymir að setja rúðuþurrkurnar af stað í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson. 

Umferðareyja við Glerárgötu. Áberandi litur í bænum því gras er víða skrælnað úr þurrki. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Regnhlíf hefur ekki sést í notkun á Akureyri í mánuð. Mynd úr miðbænum í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.