Fara í efni
Fréttir

Lokanir gatna um verslunarmannahelgina

Lokanir gatna í miðbæ Akureyrar um verslunarmannahelgina. Mynd: akureyri.is

Um verslunarmannahelgina verður að venju mikið um að vera í miðbæ Akureyrar og til að tryggja öryggi gesta verða ýmsar götur tímabundið lokaðar fyrir bílaumferð.

Göngugatan verður lokuð, ásamt Túngötu og hluta Skipagötu og Strandgötu, frá hádegi á föstudag til mánudagsmorguns. Þá verða Smáragata, Laxagata og Hólabraut lokaðar öðrum en íbúum á sama tímabili. Milli kl. 16 og 19 á laugardag verður Gilið lokað fyrir bílaumferð og Geislagata verður lokuð þann dag frá hádegi til kl. 18.

Við þetta má bæta að fjallahlaupið Súlur Vertical verður haldið á laugardaginn og af þeim sökum verður umferðarstýring á ýmsum götum og gatnamótum í bænum síðdegis þann dag, alveg frá hringtorgi við Hlíðarfjallsbraut og niður í miðbæ.

Nánari upplýsingar um götulokanir er hægt að sjá á meðfylgjandi korti, sem fengið er af vefsíðu Akureyrarbæjar.