Fara í efni
Fréttir

Lögreglumenn hættir að taka veðrið

Veðurathugunarstöð lætur ekki mikið yfir sér. Hér er núverandi athugunarstöð Veðurstofunnar á Akureyri; á holti ofan við húsið Sæberg, norðan nýrrar götu í Holtahverfinu, Hulduholts. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Rúmlega 80 ára langri sögu veðurathugana við lögreglustöðina á Akureyri er lokið. 

Veðurmælingar eru nú gerðar á nýjum stað eftir að veðurathugunarstöð Veðurstofu Íslands var færð frá lögreglustöðinni við Þórunnarstræti að Krossanesbraut og eru mælingar þegar hafnar á nýja staðnum.

Samkvæmt upplýsingum frá Ingvari Kristinssyni, framkvæmdastjóra athuguna- og upplýsingatæknisviðs Veðurstofu Íslands, er þessi breyting á Akureyri hluti af vegferð sem hófst fyrir um 15 árum síðan sem snýst um það að fækka mönnuðum veðurathugunarstöðum þannig að sjálfvirkar veðurathuganir tækju við.

Smáragata - Þórunnarstræti

Lögreglustöðin var við Smáragötu, steinsnar norðan núverandi Ráðhúss Akureyrarbæjar, þegar starfsmenn embættisins hófu að þjónusta Veðurstofuna að þessu leyti árið 1943, en við Þórunnarstræti frá því í ágúst 1968, eða í rúm 55 ár.

Frá því er sagt í tímaritinu Veðráttunni, ársyfirliti 1943, þegar veðurathuganir hófust við lögreglustöðina eftir að Karl Ásgeirsson símritari hætti veðurathugunum. „Voru áhöldin þá flutt í húsnæði lögreglunnar við Smáragötu og heldur lögregla Akureyrar veðurathugunum þar áfram. Ábyrgðarmaður er Jón Benediktsson, yfirlögregluþjónn,“ segir í Veðráttunni (sjá skjáskot af timarit.is).

Hluti af rútínunni

Lítill, hvítur kassi stóð lengi við suðvesturhorn lögreglustöðvarinnar við Þórunnarstræti og þangað rölti lögregluþjónn á þriggja klukkustunda fresti allan sólarhringinn til að rýna í mælitækin.

„Það verður hluti af rútínunni að fylgjast með veðrinu og ég hugsa óneitanlega öðruvísi um veðrið eftir að ég byrjaði að vinna hér,“ sagði Jóhann Olsen þegar núverandi ritstjóri Akureyri.net ræddi við hann fyrir Morgunblaðið í febrúar árið 2010. „Maður horfir öðruvísi á skýin og hlustar með meiri athygli á veðurfréttirnar en áður,“ sagði hann.

Rætt var við Jóhann Olsen lögreglumann á Akureyri um veðurathuganir í Morgunblaðinu 12. febrúar árið 2010

Fram kom í blaðinu að lögreglumenn fylgdust ekki bara með hita og úrkomu heldur skýjafari, skráðu loftþrýsting og ýmislegt fleira sem kemur veðurfræðingum til góða. Daglega skiptu þeir til dæmis um spjald í sólarmæli í bænum; í desember jafnt sem öðrum mánuðum, þó svo sólar njóti þá ekki á Akureyri nema rétt neðst á Oddeyrinni, víðs fjarri sólarmælinum, eins og sagði í blaðinu.

Maríutása og skúraleg netjuský!

Jóhann og Geir Baldursson, sem einnig var á vakt þennan dag, sögðu líklega ekki algengt að venjulegt fólk líti til himins á þriggja klukkustunda fresti til þess að skoða skýjafarið eins og þeir gerðu á vaktinni. „Þetta eru til dæmis maríutása og skúraleg netjuský!“ sagði Geir og benti út um glugga lögreglustöðvarinnar!

Forvitnilegt verður að sjá hvort veðrið breytið á Akureyri við það að mælingarnar færast úr Þórunnarstræti niður á Krossanesbraut ...