Fara í efni
Fréttir

Lögregla: maðurinn virkur meðlimur ISIS

Maðurinn sem um ræðir, eiginkona hans og þrjú barnanna, i Grikklandi. Fjölskyldan sendi Akureyri.net þessa mynd.

Lögregla fékk upplýsingar um að fjölskyldufaðir, sem var handtekinn í lögregluaðgerð á Akureyri nýverið og sendur til Grikklands samdægurs ásamt fjölskyldu sinni, væri virkur meðlimur í samtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki meðan hann dvaldi hér á landi. Þetta kemur fram í svari ríkislögreglustjóra við fyrirspurn fréttastofu RÚV.

Í skeyti sem umræddur maður sendi Akureyri.net frá Grikklandi þvertekur hann fyrir að vera hryðjuverkamaður og krefst þess að fá tækifæri til að sanna sakleysi sitt.

Maðurinn, sem er frá Írak, kom til landsins í september  á síðastliðnu ári ásamt eiginkonu og sex börnum eftir að hafa dvalið í Þýskalandi. Hann sótti um alþjóðlega vernd hér á landi en fjölskyldunni var synjað á þeim forsendum að hún sé með alþjóðlega vernd í Grikklandi. 

Í tilkynningu frá lögreglu daginn sem fjölskyldan var send úr landi kom fram að aðgerðir hennar hefðu staðið yfir síðan í nóvember í samstarfi við erlend lögregluyfirvöld, þar á meðal Europol.

Umræddur maður hefur sent Akureyri.net skeyti og myndir af fjölskyldunni þar sem hún býr á götunni í Grikklandi, að hans sögn. Hann harðneitar því að vera hryðjuverkamaður. Maðurinn segist krefjast þess að mál hans verði tekið fyrir að nýju svo hann fái tækifæri til að sanna sakleysi sitt. Akureyri.net er ekki kunnugt um hvort maðurinn hefur formlega farið fram á það við yfirvöld.

Smellið hér til að sjá frétt RÚV.

Frétt Akureyri.net 12. janúar: Meintur ISIS-liði handtekinn og fluttur til Grikklands ásamt konu og sex börnum

Myndir sem maðurinn sendi Akureyri.net af fjölskyldu sinni í Grikklandi.