Fara í efni
Fréttir

„Lífsgæði að hafa aðeins rýmra um sig“

Reynihlíðarhverfi við Lónsbakka, norðan Akureyrar. Ljósmyndir: Þorgeir Baldursson.

Íbúum Hörgársveitar fjölgar hratt ár frá ári og gert er ráð fyrir að um næstu áramót verði þeir orðnir um 800 talsins. Íbúum fjölgaði um 50 árið 2021, sem er vel yfir landsmeðaltali, og gert er ráð fyrir að um 80 bætist við á þessu ári. En hvaða ástæða skyldi liggja að baki þessa aukna áhuga á búsetu í sveitinni norðan Akureyrar?

Í samtali við Akureyri.net sagði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri Hörgársveitar að þessarar þróunar hafi orðið vart víðar en þar. „Fólk vill fara aðeins út fyrir þéttasta þéttbýliskjarnann og í aðeins meira rými. Það eru lífsgæði að hafa aðeins rýmra um sig en búa ekki endilega ofan í næsta nágranna. Við höfum getað boðið uppá þetta ásamt því sem Hörgársveit hefur haft gott orð á sér t.d. í skólamálum.“ Þar vísar Snorri í Leikskólann Álfastein sem hefur í mörg ár tekið inn 12 mánaða börn og Þelamerkurskóla sem hefur gott orðspor á svæðinu og er því eftirsóttur. Hann bætir við: „Þarna spila því saman samfélagið og umhverfið“.

Að sögn Snorra koma nýir íbúar Hörgársveitar alls staðar að af landinu. Einnig er nokkuð um að Íslendingar, sem hafa búið erlendis og eru að flytja heim, kjósi að búa í Hörgársveitinni.

Rúmlega 60 milljón króna hækkun á útsvari milli ára

Útsvarið er veigamesti tekjustofn sveitarfélaga. Á heimasíðu Hörgársveitar kemur fram að útsvarstekjur hækkuðu um nær fimmtung á nýliðnu ári. Hækkunin nam rúmlega 60 milljónum króna milli ára. Á heimasíðunni kemur enn fremur fram að „auknar útsvarstekjur stuðli að enn frekari uppbyggingu í ört vaxandi sveitarfélagi.“

„Uppbyggingin hefur gengið vel og hraðar en við ætluðum í upphafi þegar við fórum af stað með þetta verkefni“, segir Snorri. „Okkur sýnist líka að það muni taka styttri tíma en áætlað var, og ef fram fer sem horfir verða íbúar hér um 1.000 árið 2026.“ Snorri bætir við: „Þessi aukning kostar líka hraðari uppbyggingu innviða eins og í leikskóla og grunnskóla og þar eru mestu áskoranir sveitarfélagsins næstu ár, sem og að efla alla þjónustu við íbúana; sem þessi fjölgun vissulega kallar á.“

_ _ _

Lausaganga katta leyfð bæði innan- og utandyra

Sú heita umræða sem skapaðist um bann við lausagöngu katta á Akureyri, sem tekur gildi 2025, hefur varla farið fram hjá neinum og sýnist sitt hverjum.

Til gamans spurði Akureyri.net sveitarstjórann út í kattahald í Hörgársveit, hvort lausaganga þeirra væri leyfð, hvort hann teldi að kattaeigendur myndu flytja sig norður fyrir bæinn í aðdraganda ársins 2025 – og hvort hann ætti sjálfur kött.

„Kattahald er leyft bæði innan og utandyra“, segir Snorri, og jafnframt telur hann að margir kattaeigendur muni kjósa að flytja sig út fyrir bæinn í aðdraganda 2025, „því kettir eru mjög sjálfstæðir eins og við vitum og þurfa oft að hafa rúmt í kringum sig.“

Það er þó enginn köttur á heimili sveitarstjórans. „Nei, mín fjölskylda er meira hundafólk“, segir Snorri að lokum.