Fara í efni
Fréttir

Lestarferð yfir heimskautsbaug

Ljósmynd: Anne-Lise Stangenes

Íslendingar velta reglulega fyrir sér hvort lestarsamgöngur henti hér um slóðir. Ekki er vitað til þess að boðið sé upp á lestarferðir hérlendis nema á einum stað – í Grímsey! Ferðamönnum fer fjölgandi í eynni, til dæmis er von á 29 skemmtiferðaskipum í ár, fleiri en nokkru sinni, og hefur lestin þar þegar vakið mikla athygli ferðamanna.

„Ekki eiga allir gestir auðvelt með gang og þar sem engar almenningssamgöngur eru í Grímsey, brugðu hjónin Svafar Gylfason og Unnur Ingólfsdóttir á það ráð að kaupa lest til að keyra fólk um eyjuna,“ segir á vef Akureyrarbæjar.

Boðið er upp á akstur með nokkrum stoppum suður að vitanum og síðan að gamla kennileitinu um heimskautsbauginn. Lestin rúmar að hámarki 50 manns og tekur ferðin um eina og hálfa lukkustund með stoppum.

„Lestin hefur nú þegar komið að góðum notum og var meðal annars ekið með farþega skemmtiferðaskipsins National Geographic Explorer í kvöldsólinni í gærkvöldi,“ segir á vef Akureyrarbæjar í gær.

Til að bóka ferð með nyrstu og mögulega einu lest Íslands eða fá nánari upplýsingar er hægt að smella hér

Ljósmynd: Unnur Birta