Fara í efni
Fréttir

Leitar ökumanns sem olli slysi með framúrakstri

Hjálmur Guðmundar er laskaður, leðurfatnaður rifinn og tættur, hann sjálfur handleggsbrotinn á vinstri og tættur á þeirri hægri, auk þess sem mótorhjólið er stórskemmt. Guðmundur leitar nú ökumannsins sem olli slysinu.
Guðmundur Egill Erlendsson, Akureyringur búsettur á Skagaströnd, segir farir sínar ekki sléttar eftir að hafa lent í lífsháska á mótorhjóli þegar hann fór um Langadal í Austur-Húnavatnssýslu á leið til Akureyrar sunnudagskvöldið 30. júní. Hann birtir harðorðan pistil á Facebook-síðu sinni þar sem hann segir frá atvikinu og lýsir eftir ökumanninum sem lagði hann í lífshættu og lét sig svo hverfa.
 
Guðmundur Egill ók eftir þjóðvegi 1 inn Langadal og mætir fimm til sex bíla lest. Einn bílanna var að taka fram úr lestinni og ók beint á móti Guðmundi. Hægra megin við Guðmund var vegrið og vinstra megin var bílalestin og því fáir góðir valmöguleikar. Útafakstur var að sögn Guðmundar ómögulegur vegna vegriðsins. Guðmundur segir að sér hafi tekist að gíra hjólið niður í þriðja gír og bremsa sig niður í malbik, en þegar 50-100 metrar hafi verið eftir í bílinn sem kom á móti hafi hann skellt hjólinu niður á hægri hliðina – „og sendi honum áreiðanlega fingurinn með vinstri,“ eins og hann orðar það í pistlinum. Hann hafi þannig sléttað gróft yfirborð þjóðvegarins með leðrinu og hjálminum, steinrotast og muni lítið eftir meiru fyrr en hann reif sig aftur á fætur, losaði restina af hjálminum af sér og urraði á viðstadda hvort einhver hafi náð bílnúmerinu. Sá sem ók á móti honum lét nefnilega ekki svo lítið að stöðva heldur hélt áfram akstrinum. 
 
 
Guðmundur kveðst ævinlega þakklátur fyrir umhyggju og hlýju þess fólks sem stoppaði og hlúði að honum eftir slysið, sem hann segir gæði mannverunnar í hreinustu mynd, en hinum megin á ásnum sé hins vegar ökumaðurinn sem varð valdur að slysinu, stakk af og skildi Guðmund eftir með laskað hjól, brotna vinstri hendi og þá hægri verulega tætta, sprungna vör, ónýtan hjálm og leður – og ofsareiði í garð viðkomandi ökumanns. 
 
Grár eða dökkgrár Mitsubishi Outlander
 
Guðmundur segir að talið sé að um gráa eða dökkgráa Mitsubish Outlander bifreið hafi verið að ræða og með einkanúmer. Hann segir myndavélar á stöku stað á þjóðveginum sem ættu að sýna númerið en það hafi hins vegar ekki verið búið að skoða þegar hann skrifaði pistilinn. Hann kallar eftir því hvort vegfarendur á þjóðvegi 1 milli Akureyrar og Reykjavíkur síðastliðið sunnudagskvöld kannist við að hafa séð til þessa bíls og geti þá veitt lögreglunni eða honum „upplýsingar um númerið eða annað sem leitt getur til þess að hann verði látinn standa skil gjörða sinna.“ 
 
„Það er svo fáránlegt að menn hagi sér svona og komist upp með að setja aðra í lífshættu með fávitaskap einum,“ skrifar Guðmundur og leynir ekki reiðinni. Aðalatriðið sé hins vegar að hann sitji ekki uppi með fjárhagslegt tjón sem núna megi telja í hundruðum þúsunda vegna sjúkrakostnaðar, ónýts búnaðar og stórskemmds mótorhjóls.