Fara í efni
Fréttir

Leita húsnæðis fyrir nýtt barnaverndarúrræði

Umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar hefur auglýst eftir fjögurra til fimm herbergja húsi til leigu til tveggja ára. Heppileg staðsetning er sögð innan Akureyrar. Ætlunin er að þar verði opnað nýtt barnaverndarúrræði, greiningar- og þjálfunarheimili. Akureyri.net greindi frá því fyrir réttri viku þegar bæjarstjórinn á Akureyri og ráðherra barnamála undirrituðu samstarfssamning um rekstur slíks heimilis. Leit er nú hafin að hentugu húsnæði og má því vænta að innan skamms verði auglýst eftir starfsfólki á heimilið. 

Að sögn Elmu Eysteinsdóttur, formanns velferðarráðs, standa vonir til þess að umrætt heimili geti hafið starfsemi í sumarbyrjun. Áætlaður rekstrarkostnaður heimilisins er rúmar 107 milljónir króna á ári samkvæmt kostnaðaráætlun sem gerð var á liðnu ári. Framlag ráðuneytisins samkvæmt samningnum verður 54 milljónir króna á ári. Gert er ráð fyrir 6-7 stöðugildum við heimilið.