Fara í efni
Fréttir

Leikskólarými í Síðu- og Oddeyrarskóla

Leikskóladeildin verður á jarðhæð í enda þessarar byggingar Oddeyrarskóla. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Leikskóladeildum verður komið fyrir í tveimur grunnskólum bæjarins í sumar, Oddeyrarskóla og Síðuskóla. Með því eru meiri líkur á að frá og með haustinu verði rými fyrir öll börn sem sótt hefur verið um pláss fyrir að sögn Heimis Arnar Árnasonar, formanns fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrar.

Tillaga þessa efnis var til umfjöllunar í fræðslu- og lýðheilsuráði í dag en á eftir að fara fyrir bæjarráð til formlegrar afgreiðslu.

Gamla smíðastofan

„Það voru 50 pláss sem við þurftum að leysa á skömmum tíma,“ segir Heimir Örn við Akureyri.net. „Það er mjög ánægjulegt að þetta verði að öllum líkindum til þess að við náum að innrita þau börn sem eru á biðlista hjá okkur.“

Um er að ræða 85 fermetra rými í Oddeyrarskóla, á jarðhæð í vestasta hluta skólans þar sem í árafjöld var smíðastofa. Þar verður pláss fyrir 24 börn og deildin verður hluti leikskólans Iðavallar, sem er til húsa við Gránufélagsgötu. Rýmið verður gert upp í samráði við stjórnendur Iðavallar og Oddeyrarskóla að sögn Heimis.

12-18 mánaða börn

„Í Oddeyrarkóla verður starfrækt deild fyrir yngstu börnin, 12 til 18 mánaða,“ segir hann. Sérinngangur verður á leikskóladeildina og gert verður útisvæði fyrir börnin sunnan við húsið. Gert er ráð fyrir að kostnaður geti orðið allt að 30 milljónir króna við endurbætur auk kostnaðar við gerð bílastæðis og vegna kaupa á búnaði. Um tímabundna lausn er að ræða og mun aðstaðan verða á forræði Oddeyrarskóla að 2-3 árum liðnum, eins og segir í minnisblaði sem lagt var fram á fundi fræðslu- og lýðheilsuráðs í dag.

Elstu börnin í Síðuskóla

Rýmið í Síðuskóla er um 120 fermetrar og þar verður pláss fyrir 32 börn. Deildin verður hluti leikskólans Krógabóls sem er aðeins steinsnar frá, í kjallara Glerárkirkju. „Rýmið sem um ræðir er núna tvær kennslustofur á yngri barna gangi skólans. Þar verður starfrækt deild fyrir elstu börn leikskólans,“ segir í áðurnefndu minnisblaði. Þar segir einnig: „Rýmið hefur sérinngang en notast verður við bílastæði Síðuskóla. Gert verður lítið afgirt útisvæði fyrir börnin við inngang deildarinnar. En til stendur að fara í miklar framkvæmdir á lóð Síðuskóla í sumar og mun deildinni standa til boða að nýta þá lóð en öll leiktæki þar munu miðast við 3-12 ára aldur. Kostnaður gæti numið allt að 20 milljónum króna auk kostnaðar við búnaðarkaup. Einnig þarf að leggjast í framkvæmdir í Krógabóli þar sem nemendahópurinn þar verður yngri en áður hefur verið.“

Síðuskóli; leikskóladeildin verður þarna í suðurenda skólahússins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Hagaleikskóli á dagskrá

„Þetta er afar ánægjuleg lausn og samstarfið við skólastjórnendur og starfsmenn skólanna, Oddeyrarskóla, Síðuskóla, Krógabóls og Iðavallar, var einstaklega gott; ég vil hrósa þeim og starfsfólki fræðslusviðs bæjarins fyrir góða lausnaleit og jákvæðni.“

Mesta þörfin fyrir leikskólapláss er hjá fólki sem búsett er í Naustahverfi. Hinar nýju leikskóladeildir eru því í öðrum hverfum en Heimir segir ánægjulegt og mikilvægt að nýta vel húsnæði í eigu sveitarfélagsins og leggur áherslu á að ástandið sé tímabundið því á kjörtímabilinu verði hafist handa við byggingu fyrsta áfanga Hagaleikskóla. „Fyrsti áfangi ætti að vera tilbúinn 2025 eða 2026 og þá ættum við að vera á mjög góðu róli með leikskólarými á Akureyri. Fyrst í stað verður pláss fyrir 80 til 90 börn í Hagaleikskóla og framhaldið fer eftir því hver þörfin verður,“ segir Heimir Örn.

Hagaleikskóli verður vestan við gamla Naustabæinn, á milli Nausta- og Hagahverfa syðst í bæjarlandinu; þar sem rauði hringurinn er dreginn á myndunum hér að neðan.

myndir af map.is

Fyrir þá sem eru kunnugir staðháttum! Oddeyrarskóli, til vinstri, og Síðuskóli.