Fara í efni
Fréttir

Leigja Freyvang og reka næstu tvö árin

Samið um Freyvang. Jóhanna Sigurbjörg Ingólfsdóttir, formaður Freyvangsleikhússins og Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar. Ljósmynd: Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir.

Í gær var skrifað undir rekstrarleigusamning til tveggja ára milli Freyvangsleikhússins og Eyjafjarðarsveitar. Það voru Jóhanna Sigurbjörg Ingólfsdóttir, formaður Freyvangsleikhússins og Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar sem skrifuðu undir samninginn á sviðinu í Freyvangi í miðri leikmynd Kardimommubæjarins.

Getur sótt um styrk til sveitarfélagsins

Rekstrarleigusamningurinn er til tveggja ára, eða til 1. júní 2024. Í honum felst að Freyvangsleikhúsið stendur straum af öllum rekstrarkostnaði og sér um viðhald á húsinu. Þó getur leikfélagið sótt um styrk til sveitarfélagsins vegna efniskostnaðar. Freyvangsleikhúsið fær húsið afhent 1. maí en tekur við rekstrinum 1. október.

Í samtali við Akureyri.net sagði Jóhanna Sigurbjörg að fram til þessa hafi leikfélagið borgað sem nemur 15% af hverjum seldum miða í leigu til sveitarfélagsins, til að fá að vera í húsinu: „Það hefur rokkað frá 700.000 – 1.200.000 yfir veturinn þannig að það hefur svo sem alltaf verið okkar leiga. Fyrir vikið er þetta bara niðurneglt núna þegar við fáum húsið allt árið um kring.“

Báðir aðilar ánægðir með samninginn

Að undirskrift lokinni sögðu formaðurinn og sveitarstjórinn að þau væru mjög ánægð með samninginn.

Jóhanna sagði: „Alveg frábært. En við hefðum náttúrlega viljað lengri samning.“

Finnur Yngvi sagði: „Ég held þetta sé góð byrjun. Þetta mótar jafnvel eitthvað sem gæti orðið áframhald á.“

Stjórn Freyvangsleikhússins var viðstödd undirskriftina ásamt leikurum sem voru að byrja að undirbúa sig fyrir sýningu kvöldsins. Þarna voru samankomnir fjórir fyrrverandi formenn Freyvangsleikhússins, þeir Halldór Sigurgeirsson, Leifur Guðmundsson, Ingólfur Þórsson og Anna María Hjálmarsdóttir og af því tilefni var þeim hóað saman í myndatöku ásamt núverandi formanni

Nú eru síðustu forvöð að sjá Kardimommubæinn á fjölum Freyvangs því lokasýning er á sunnudaginn næstkomandi 1. maí.

Stjórn Freyvangsleikhússins

Formaður: Jóhanna Sigurbjörg Ingólfsdóttir

Varaformaður: Gunnar Möller

Ritari: Anna Bryndís Sigurðardóttir

Gjaldkeri: Ingólfur Þórsson

Meðstjórnandi: Helga Dögg Jónsdóttir

Varastjórn

Sveindís María Sveinsdóttir

Daði Freyr Þorgeirsson

Vilhjálmur Árnason

Fimm formenn. Frá vinstri: Jóhanna Sigurbjörg Ingólfsdóttir, Anna María Hjálmarsdóttir, Ingólfur Þórsson, Halldór Sigurgeirsson og Leifur Guðmundsson. Ljósmynd: Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir.