Fara í efni
Fréttir

Lárus Ingi og Veigar Íslandsmeistarar

Lárus Ingi Antonsson á Íslandsmótinu sem lauk í Grafarholti í dag. Ljósmynd: seth@golf.is

Akureyringarnir Lárus Ingi Antonsson og Veigar Heiðarsson urðu í dag Íslandsmeistarar unglinga í holukeppni í golfi, þegar Íslandsmótinu lauk á Grafarholtsvelli í Reykjavík. Lárus keppti í flokki 19 til 21 árs en Veigar í 14 til 16 ára flokki. Þar varð Skúli Gunnar Ágústsson, líka úr GA, í fjórða sæti eftir að hann tapaði úrslitaleik um þriðja sætið með minnsta mun.

Veigar Heiðarsson, sem sló Skúla út í undanúrslitum, mætti Gunnlaugi Árna Sveinssyni úr GKG í úrslitaleiknum. Gunnlaugur var fyrir mótið efstur á stigalista Golfsambandsins og þótti sigurstranglegri, en Veigar lét það ekki á sig fá og lék afar vel. Staðan var jöfn eftir 18 holur og því gripið til bráðabana, þar sem Veigar hafði betur á 20. holu.

Lárus Ingi þótti sigurstranglegastur í elsta flokknum. Hann stóð undir væntingum og sigraði Tómas Eiríksson Hjaltasted, Golfklúbbi Reykjavíkur, í úrslitaleiknum. Lárus Ingi varð Akureyrarmeistari fyrr í sumar og lenti í 3. til 6. sæti á Íslandsmótinu í höggleik á Jaðarsvelli um síðustu helgi, eftir frábæra spilamennsku síðasta daginn. Þá varð hann í öðru sæti á Íslandsmóti fullorðinna í holukeppni.

Veigar Heiðarsson, Íslandsmeistari í holukeppni í flokki 14 til 16 ára, slær af teig í Grafarholti á föstudaginn. Ljósmynd: seth@golf.is