Fara í efni
Fréttir

Lárus á 5 undir pari: Ég datt í fuglagírinn!

Lárus Ingi Antonsson lék á fimm höggum undir pari í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Lárus Ingi Antonsson lék frábærlega í dag, á þriðja degi Akureyrarmótsins í golfi. Fór hringinn á 66 höggum, fimm undir pari Jaðarsvallar. Hann er vitaskuld lang efstur í meistaraflokki; hefur hvorki meira né minna en 13 högga forskot á næsta mann fyrir síðasta keppnisdag.

Örvar Samúelsson lék líka afar vel í dag, á 68 höggum, og komst upp að hlið Tuma Hrafns Kúld. Tumi lék á 72, einu höggi yfir pari, í dag og báðir eru samtals á 220 höggum, í 2. til 3. sæti.

Þeir leika því saman í síðasta holli morgundagsins, Akureyrarmeistarar þriggja síðusta ára – Lárus Ingi, meistari 2020, Örvar, sem varð meistari 2019 og Tumi, meistari 2018.

Besti hringur á ferlinum

„Mér gekk frábærlega í dag, það má segja að ég hafi dottið í fuglagírinn,“ sagði Lárus Ingi við Akureyri.net. „Ég hef verið að bíða eftir þessu. Hef slegið mjög vel allt mótið og átt fullt af góðum púttum, þótt þau hefðu mátt ganga betur.“

Lárus Ingi fékk sex fugla í dag; fugl er það kallað þegar kylfingur fer holu á einu höggi undir pari. Fyrst á 3. braut, aftur á 13. og síðan á fjórum síðustu holunum – 15., 16., 17. og 18. Sannarlega glæsilega gert.

„Í dag lék ég allan hringinn vel, var að vísu með einn skolla en sex fugla og fór allar hinar holurnar á pari.“ Skolli er þegar kylfingur leikur holu á einu höggi yfir pari. „Ég sló rosalega vel og kom mér í mörg góð fuglafæri, ekki bara á þeim holum þar sem ég náði fugli,“ sagði Lárus Ingi. Hann kveðst hafa spilað á fjórum höggum undir pari vallar, reyndar ekki að Jaðri, „en já, þetta er besti skráði hringur minn á ferlinum,“ sagði hann aðspurður.

Hugsaði ekki um vallarmetið

Lárus Ingi, sem varð 19 ára fyrr á árinu, varð einnig Akureyrarmeistari í fyrra eins og áður sagði. „Þá var ég með góða forystu eftir tvo fyrstu dagana en Tumi kom sér aftur inn í baráttuna með því að setja vallarmet á þriðja degi!“ rifjaði Lárus upp í dag. Tumi lék þá hringinn á 64 höggum – sjö undir pari – og jafnaði vallarmat Arons Snæs Júlíusson úr GKG frá 2017.

„Nei, ég hugsaði ekkert um vallarmetið í dag,“ svaraði Lárus Ingi, þegar blaðamaður spurði. „Ég var svo langt frá því eftir 12 holur, en ef ég hefði fengið fugl á 14. hefði dæmið reyndar litið betur út!“

Hann hefur 13 högga forskot á næstu menn eins og áður kom fram, en hann segist alls ekki munu hugsa um það á morgun. Ekki komi annað til greina en að fara eftir því leikplani sem hann ákvað fyrir mót. „Ég hef verið að spila vel og ætla bara að halda því áfram,“ sagði Lárus Ingi.

Smellið hér til að sjá allar upplýsingar um meistaraflokk karla.