Fara í efni
Fréttir

Lara og Lidija frá Þór/KA til Abu Dhabi

Lara Ivanuša og Lidija Kuliš. Myndir: Þórir Ó. Tryggvason.

Tvær af erlendu knattspyrnukonunum sem hafa leikið með Þór/KA á þessu ári, Lara Ivanuša og Lidija Kuliš, eru á förum og á leið til félags í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Greint var frá þessu á vef Þórs/KA í dag.

Lara og Lidja  hafa samið við félagið Abu Dhabi Country Club. Báðar komu þær til Þórs/KA frá félagi í Króatíu í febrúar og spiluðu sína fyrstu leiki fyrir félagið í A-deild Lengjubikarsins í byrjun mars.

Lara spilaði samtals 20 leiki fyrir félagið, þar af 14 í Bestu deildinni þar sem hún skoraði tvö mörk. Lidija spilaði 21 leik, þar af 15 í Bestu deildinni.

„Brotthvarf þeirra og félagaskipti eru að þeirra eigin ósk, en þegar upp kom að félagið í Abu Dhabi vildi semja við þær var vilji til þess ytra að fá þær strax þar sem nú er innan við mánuður í að félagið leiki í Meistaradeild Asíu. Stjórn Þórs/KA ákvað að standa ekki í vegi fyrir félagaskiptum þeirra þó svo fjórir leikir séu eftir af tímabilinu hjá Þór/KA í efri hluta Bestu deildarinnar,“ segir á vef Þórs/KA í dag.