Fara í efni
Fréttir

Langþráð stund: Nýi troðarinn kominn!

Nýr snjótroðari Skógræktarfélagsins Eyfirðinga kominn í hús. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Nýr snjótroðari Skógræktarfélags Eyfirðinga er kominn á framtíðar heimili sitt í Kjarnaskógi. Það var langþráð stund þegar troðarinn var tekinn úr gámi sem starfsmenn Eimskips fluttu í skóginn í vikunni.

Stefnt er að því að taka gripinn formlega í notkun á laugardag – með því að gera bestu mögulegu brautir fyrir skíðagöngufólk, eins og Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélagsins tekur til orða. Hann er spenntur að taka í notkun glænýjan troðara beint frá framleiðanda.

Félagið hratt af stað formlegri söfnun fyrir nýjum snjótroðara í febrúar 2021 og lauk henni ári síðar, 22. febrúar í fyrra – 22022022. Nýr troðari kostar 35 milljónir, sem var upphaflegt markmið, en alls söfnuðust hvorki meira né minna en tæpar 42 milljónir króna! Það sem safnaðist umfram verðmiðann verður notað upp í kostnað við að reisa skemmu yfir troðarann.

Blásið var til söfnunarinnar sakir þess að Gamli rauður, hinn aldni snjótroðari félagsins, sinnti orðið illa hlutverki sínu; var raunar að því kominn að syngja sitt síðasta. Söfnunin gekk framar vonum enda mörgum umhugað að tryggja áfram frábæra þjónustu í skóginum. Ingólfur og hans fólk sjá því fram á betri tíð – vonandi þó ekki með blóm í haga fyrr en í vor heldur nægum, góðum snjó fram eftir vetri.

Unnið er að því að búa troðarann undir að hefja störf; festa þarf hann á tönn, og útbúnað til þess að gera sporin góðu fyrir þá sem mæta með gönguskíðin. Og læra á alla takana sem blasa við ökumanni þegar sest er undir stýri! Stefnt er að því að morgun verði æfingadagur til þess að starfsfólk og troðarinn sjálfur verði eins vel búin undir laugardaginn og kostur er.

Stjórn og hluti starfsfólk Skógræktarfélagsins við nýja snjótroðarann í gærkvöldi. Gleðin leynir sér ekki. Fremst er Sigríður Hrefna Pálsdóttir, formaður félagsins.

Unnið að því að ná troðaranum út úr gámnum eftir komuna í Kjarnaskóg.

Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, kampakátur með sendinguna.