Fara í efni
Fréttir

„Langþráð skóflustunga – mikilvæg tímamót“

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar og Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi, taka fyrstu skóflustunguna, að viðstaddri Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra á Akureyri, fleiri fulltrúum Akureyrarbæjar, Festi og Krónunnar. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, og Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi, eignarhaldsfélags Krónunnar, tóku í morgun fyrstu skóflustunguna að nýrri verslun Krónunnar á Akureyri. Verslunin verður á svokölluðum Hvannavallarreit og er áætlað að hún opni síðla árs 2022.

Krónuverslunin verður rúmir 2.000 fermetrar að stærð og verður fyrsti áfangi framkvæmdarinnar í höndum Lækjarsels ehf. á Akureyri. „Krónan er dagvöruverslun sem leggur mikið upp úr ferskvöru, hollustu og umhverfismálum – og elskar snjallar lausnir sem einfalda lífið. Áhersla er lögð á að koma þessu fjölbreytta vöruúrvali í hendur neytenda á eins ódýran hátt og mögulegt er. Krónuverslanir hafa verið starfræktar á Íslandi frá árinu 2000,“ segir í tilkynningu.

„Þessi skóflustunga hér í dag er langþráð og markar mikilvæg tímamót hjá Krónunni. Með þessari verslun, sem verður okkar fyrsta á Norðurlandi, náum við að auka þjónustu okkar á landsbyggðinni og stækka hóp mögulegra viðskiptavina okkar verulega. Við hlökkum mikið til að hefja samstarf við fólkið á svæðinu og ekki síst að taka virkan þátt í nærumhverfi Krónunnar hér á Akureyri. Við munum að venju leggja allt okkar í að bjóða vandað vöruúrval á sem bestu verði og kynna snjallar lausnir sem einfalda lífið við innkaupin,“ segir Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar.

Smelltu hér til að lesa nánar um Krónuverslunina á Akureyri.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, fékk líka að taka fyrstu „stóru skóflustunguna“ í morgun ...

... og gerði það eins og þrælvanur gröfumaður!

Sjálfa er nauðsynleg á degi eins og þessum; Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.