Fara í efni
Fréttir

Landsbankinn færir sig um set í miðbænum

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Starfsemi Landsbankans á Akureyri verður flutt úr núverandi húsnæði í Strandgötu 1 síðari hluta næsta árs, í hús sem nú er í byggingu steinsnar frá; Hofsbót 2, austan við Nýja bíó (Sambíó). Bankaútibúið verður á allri neðstu hæðinni þar og raunar einnig í hluta neðstu hæðar Hofsbótar 4 sem fyrir er, en húsin verða sambyggð. Í plássinu í Hofsbót 4 sem bankinn fær til umráða er nú verslun Vogue.

Landsbankinn byggði húsið við Strandgötu um miðja síðustu öld og starfsemi hófst þar 1954. Þegar bankinn flytur á næsta verða því liðin 70 ár síðan bankastarfsemi hófst í húsinu.

Bankinn seldi Strandgötu 1 undir lok síðasta árs. Kaupandi var Kaldbakur, fjárfestingafélag Samherja, og greiddi 685 milljónir króna fyrir. Smellið hér til að sjá frétt Akureyri.net frá því í nóvember.

Miðbæjarbanki

Arnar Páll Guðmundsson, útibússtjóri Landsbankans á Akureyri, er mjög sáttur við flutninginn enda verður bankinn nánast á sama stað. „Við viljum vera í miðbænum – Landsbankinn er miðbæjarbanki, bæði í Reykjavík og víðar,“ segir Arnar Páll í samtali við Akureyri.net. „Núverandi húsnæði er 2300 fermetrar en við förum í 600 fermetra, sem er svipað og jarðhæðin hér í Strandgötu 1. Nýja húsnæðið mun henta starfseminni mjög vel.“

Starfsmenn Landsbankans á Akureyri eru um 30 og er útibúið þar stærsti vinnustaður bankans fyrir utan höfuðstöðvarnar. „Hér sinnum við meðal annars miðlægri starfsemi sem þjónar öllu landinu. Tæplega helmingur starfsmanna bankans á Akureyri starfar í þjónustuveri og svarar erindum sem bankanum berast rafrænt eða í gegnum síma, frá viðskiptavinum hvar sem er á landinu.“

Bankinn flytur ekki langt; Landsbankahúsið frá 1954 stendur við Ráðhústorg en starfsemin flyst í húsið sem nú er í byggingu þar sem rauði hringurinn er vinstra megin. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Hofsbót 2, til hægri, þar sem útibú Landsbankans verður á allri neðstu hæðinni. Sama sjónarhorn á næstu mynd fyrir neðan. Bankinn verður einnig á hluta neðstu hæðar Hofsbótar 4, til vinstri, þar sem nú er verslun Vogue. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Hofsbót 4. Ráðhústorg í fjarska hægra megin.

Norðurhlið Hofsbótar 2, Nýja bíó (Sambíó) til hægri.